Garðar Olgeirsson 25.03.1943 -

<p>Garðar er fæddur í Hafnarfirði 25. mars 1943 en kom eins dags gamall að Hellisholtum í Hrunamannahreppi og hefur átt þar heima síðan. Hann ólst upp við öll almenn sveitastörf þess tíma og var fjögur ár í barnaskóla.</p> <p>Garðar fór 16 ára í Tónlistarskóla Árnesinga og lærði þar á klarinett í þrjú ár. „Kennslan var nú ekki nema í hálftíma, tvisvar í viku. Hins vegar voru samgöngur strjálar á þessum árum. Ég varð að notast við ferðir mjólkurbílanna og gista á Selfossi í hverri ferð. Þess vegna fór heill sólarhringur í hvern tíma.</p> <p>Síðan fór ég í framhaldsnám. Fyrst var ég einn vetur hjá Vilhjálmi Guðjónssyni, og síðan tvo vetur hjá Gunnari Egilssyni.“</p> <p>En samhliða tónlistarnáminu spilaði Garðar á harmonikku.</p> <p>„Ég hef dáð hin seiðandi danslög harmonikkunnar frá því ég man eftir mér. Ég klökknaði oft þegar ég var krakki og heyrði góða harmonikkutónlist í útvarpinu. Tíu ára fékk ég mína fyrstu harmonikku og byrjaði auðvitað strax að fikta. Reyndi að spila eftir eyranu og pikka upp eina og eina laglínu eftir einum eða tveimur körlum hér í sveitinni.</p> <p>En sumarið 1960 hljóp á snærið hjá mér. Karl Jónatansson harmonikkuleikari var þá sundlaugarvörður á Flúðum sumarlangt. Hann hefur ætlað að taka sér frí frá kennslunni. En ég byrjaði auðvitað að suða í honum og hann lét mig frá níðþung lög. Hefur kannski búist við að ég gæfist upp. En ég þrælaði mér í gegnum þetta og lærði hjá honum í sex ár.“</p> <p>Garðar hugði á framhaldsnám erlendis, en þá veiktist faðir hans. Hann tók þá við búinu og hefur verið bóndi í Hellisholtum frá 1976.</p> <p>„Ég lék nú samt töluvert fyrir dansi í Reykjavík á sjöunda áratugnum, með Hljómsveit Óskars Cortes í Ingólfscafé og síðan með Hljómsveit Ágústs Guðmundssonar. En þetta var langt að fara, 100 km akstur í bæinn og síðan aftur austur að dansleik loknum. Um 1970 hætti ég svo í hljómsveitarbransanum í bænum. Ég spila samt alltaf svolítið á dansleikjum Harmonikufélags Selfoss og með Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík. Auk þess hef ég lengi safnað harmonikutónlist og á líklega nokkur þúsund lög til að hlusta á þegar næði gefst.“</p> <p>Garðar hefur kennt við Tónlistarskóla Árnesinga á síðustu árum. Hann hefur leikið inn á tvær 12 laga plötur og gefið út tvo geisladiska, þann seinni í desember sl.</p> <p>„Klarinettið er hins vegar farið að rykfalla. Það hentar ekki vel að spila einn á klarinett uppi í sveit.“ ...</p> <p align="right">Fjölskylda og frændgarður. Morgunblaðið. 25. mars 2014, bls. 26-27.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Harmonikuleikari og klarínettuleikari
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 26.03.2014