Hallgrímur Þorsteinsson 10.04.1864-09.11.1952

<p>Sunnudaginn 9. þ. m. lézt að heimili sínu, Sólvallagötu 6 hér í bæ, einn elzti stjórnandi og forystumaður lúðrasveita á íslandi, Hallgrímur Þorsteinsson söngkennari og tónskáld, hátt á níræðis aldri.</p> <p>Flestir Reykvíkingar er komnir eru til vits og ára sinna, munu minnast Hallgríms frá því hann var meðal aðalsöng- og orgelkennara bæjarins, en kunnari mun hann þó haf a verið fyrir sitt mikla og ósérplægna starf í þágu íslenzkra lúðrasveitarmála. Ungur nam Hallgrímur orgelleik hjá Einari Einarssyni, bónda, og síðar hljóðfæraleik hjá Helga heitnum Helgasyni tónskáldi, sem fyrstur stofnaði lúðrasveit á Íslandi. Upp frá því vann Hallgrímur af miklum dugnaði og fórnfýsi að stofnun og velgengni lúðrasveita og mætti með sanni segja, að hann hafi verið faðir flestra ef ekki allra núverandi lúðrasveita hér á landi.</p> <p>Hér í bæ gekkst hann fyrir stofnun lúðrasveitarinnar „Svanir“, er starfaði innan góðtemplarareglunnar, „Sumargjafarinnar“, er starfaði innan K.F.U.M. og lúðrasveitann „Hörpu“ og „Gígjunnar“, sem síðar sameinuðust, er Lúðrasveit Reykjavíkur var stofnuð, 7. júlí 1922. Hallgrímur vann einnig að stofnun lúðrasveita víðs vegar um land, m. a. stjórnaði hann Lúðrasveit Vestmannaeyja um skeið og var kjörinn heiðursfélagi hennar.</p> <p>Árið 1930 átti Hallgrímur mikinn þátt í stofnun Lúðrasveitarinnar Svanur og var hann fyrsti kennari og stjórnandi hennar, og lét sig síðan miklu varða starfsemi Svans. Hallgrímur var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Lúðrasveitarinnar Svanur í viðurkenningarskyni fyrir sitt mikla og óeigingjarna starf í hennar þágu.</p> <p>Einnig starfaði Hallgrímur í þágu ýmissa söngkóra, svo sem Kennarakórs Reykjavíkur er hann stjórnaði 1934 við góðan orðstír. Um mörg ár kenndi Hallgrímur orgelleik og var kirkjuorgelleikari bæði hér í bæ og víðar. Margir okkar mikilhæfustu söngvara hlutu sína fyrstu söngmenntun hjá honum. Með allri þessari starfsemi sinni hefur Hallgrímur eflt mjög tónlistarlíf Reykjavíkur, og munu þeir áreiðanlega margir hinir íslenzku hljómlistarmenn, sem hlotið hafa sína fyrstu tilsögn undir handleiðslu hans. Þ. á. m. meðal má nefna Karl Runólfss., tónskáld og núverandi stjórnanda Lúðrasveitarinnar Svanur. Hallgrímur átti mikið safn innlendra og erlendra tónverka og samdi sjálfur mörg lög, þó ekki hafi nema fá þeirra birzt á prenti.</p> <p>Fyrir nokkrum árum, er úthlutun listamannafjár var í höndum listamánna sjálfra, var Hallgrími veitt smá viðurkenning fyrir unnin tónlistarstörf. Ef saga tónlistarinnar á Íslandi verður einhvern tíma í letur færð, verður Hallgrími vafalaust ætlaður þar veglegur sess við hlið brautryðjendanna, þeirra Péturs Guðjohnsen og Helga Helgasonar.</p> <p>Undirritaður átti því láni að fagna að kynnast Hallgrími ungur að aldri. Fyrst í Miðbæjarbarnaskólanum, er Hallgrímur kenndi þar söng, og síðar innan Lúðrasveitarinnar Svanur og hafði um mörg ár náið og ánægjulegt samstarf við hann um málefni þess félags, og getur því af reynslu vitað um hans mikla og ódrepandi áhuga við raddsetningar og kennslu, sem oftast var í té látin gegn lítilli þóknun eða engri...</p> <p align="right">Hreiðar Ólafsson. Minnningar. Vísir. 17. nóvember 1952, bls. 4.</p> <p>Sjá einnig:</p> <ul> <li>Kennaratal á Íslandi, 1. bindi bls. 258.</li> <li>Skært lúðrar hljóma: Saga íslenskra lúðrasveita, bls 383-387. Samband íslenskra lúðrasveita (1984).</li> </ul>

Staðir

Hrunakirkja Organisti 1887-1897

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Lúðrasveit Vestmannaeyja Stjórnandi 1924 1927
Lúðrasveitin Svanur Stjórnandi 1930 1935

Tengt efni á öðrum vefjum

Kórstjóri , organisti , orgelkennari , stjórnandi og söngkennari

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 24.02.2018