Rögnvaldur Sigurjónsson (Rögnvaldur Kristján Sigurjónsson) 15.10.1918-28.02.2004

<p>Rögnvaldur Kristján fæddist á Eskifirði 15. október 1918. Foreldrar hans voru Sigurjón Markússon sýslumaður og Sigríður Þorbjörg Björnsdóttir.</p> <p>Sigurjón var sonur Markúsar Bjarnasonar, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Bjargar Jónsdóttur, en Sigríður Þorbjörg var systir Bjarna, eftirhermu og gamanvísnasöngvara, dóttir Björns Björnssonar, bónda í Álftártungu, og Jensínu Bjarnadóttur.</p> <p>Eiginkona Rögnvaldar var Helga Egilson sem lést 2001 og eignuðust þau tvo syni, Þór og Geir.</p> <p>Rögnvaldur lauk prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1937, stundaði nám í píanóleik hjá M. Ciampi í París 1937-39 og M. Horzovsky og Sascha Gorodnitzki í New York 1942-45 og lauk prófi í hljómsveitarútsetningum hjá Vittorio Giannini við Juilliard School of Music í New York 1944.</p> <p>Rögnvaldur kenndi píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1945-86, var yfirkennari við framhaldsdeild píanódeildar skólans frá 1959 og yfirkennari í píanóleik við Nýja tónlistarskólann frá 1986 og til æviloka.</p> <p>Rögnvaldur hélt fjölda einleikstónleika, kom fram með hljómsveitum og lék á fjölda útvarps- og sjónvarpstónleika, hér á landi og víða um heim, og inn á fjölmargar hljómplötur. Hann var tónlistargagnrýnandi við Morgunblaðið, Tímann og Þjóðviljann og gerði þáttaröð fyrir útvarp, 1985-88, Túlkun í tónlist, sem var afar vinsælt útvarpsefni. Hann var m.a. formaður FÍT 1977-83, og Einleikarasambands Norðurlanda 1979-81. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til menningarmála á Íslandi, var heiðursborgari Winnipeg-borgar og heiðursfélagi Félags íslenskra tónlistarmanna.</p> <p>Endurminningar Rögnvalds, skráðar af Guðrúnu Egilson, eru bækurnar Spilað og spaugað og Með lífið í lúkunum.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 15. október 2014, bls. 35.</p> <p>Tónlistarsafn Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni varðveitir talsvert efni tengt Rögnvaldi -&nbsp;ljósmyndir, hljóðrit. sendibréf, úrklippur svo dæmi séu tekin.</p> <p align="right">Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Píanókennari 1945-1986

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari , píanóleikari , tónlistargagnrýnandi og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019