Rögnvaldur Sigurjónsson (Rögnvaldur Kristján Sigurjónsson) 15.10.1918-28.02.2004

Rögnvaldur Kristján fæddist á Eskifirði 15. október 1918. Foreldrar hans voru Sigurjón Markússon sýslumaður og Sigríður Þorbjörg Björnsdóttir.

Sigurjón var sonur Markúsar Bjarnasonar, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Bjargar Jónsdóttur, en Sigríður Þorbjörg var systir Bjarna, eftirhermu og gamanvísnasöngvara, dóttir Björns Björnssonar, bónda í Álftártungu, og Jensínu Bjarnadóttur.

Eiginkona Rögnvaldar var Helga Egilson sem lést 2001 og eignuðust þau tvo syni, Þór og Geir.

Rögnvaldur lauk prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1937, stundaði nám í píanóleik hjá M. Ciampi í París 1937-39 og M. Horzovsky og Sascha Gorodnitzki í New York 1942-45 og lauk prófi í hljómsveitarútsetningum hjá Vittorio Giannini við Juilliard School of Music í New York 1944.

Rögnvaldur kenndi píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1945-86, var yfirkennari við framhaldsdeild píanódeildar skólans frá 1959 og yfirkennari í píanóleik við Nýja tónlistarskólann frá 1986 og til æviloka.

Rögnvaldur hélt fjölda einleikstónleika, kom fram með hljómsveitum og lék á fjölda útvarps- og sjónvarpstónleika, hér á landi og víða um heim, og inn á fjölmargar hljómplötur. Hann var tónlistargagnrýnandi við Morgunblaðið, Tímann og Þjóðviljann og gerði þáttaröð fyrir útvarp, 1985-88, Túlkun í tónlist, sem var afar vinsælt útvarpsefni. Hann var m.a. formaður FÍT 1977-83, og Einleikarasambands Norðurlanda 1979-81. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til menningarmála á Íslandi, var heiðursborgari Winnipeg-borgar og heiðursfélagi Félags íslenskra tónlistarmanna.

Endurminningar Rögnvalds, skráðar af Guðrúnu Egilson, eru bækurnar Spilað og spaugað og Með lífið í lúkunum.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 15. október 2014, bls. 35.

Tónlistarsafn Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni varðveitir talsvert efni tengt Rögnvaldi - ljósmyndir, hljóðrit. sendibréf, úrklippur svo dæmi séu tekin.

Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Píanókennari 1945-1986

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari, píanóleikari, tónlistargagnrýnandi og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019