Finnbogi Guðmundsson 08.01.1924-03.04.2011

[Finnbogi var] sonur Laufeyjar Vilhjálmsdóttur kennara og Guðmundar Finnbogasonar, heimspekings, prófessors og landsbókavarðar.

Guðmundur var sonur Finnboga Finnbogasonar, bónda á Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, og Guðrúnar Jónsdóttur frá Belgsá, en Laufey var dóttir Vilhjálms, bónda á Rauðará við Reykjavík, sonar Björns Halldórssonar, prófasts, skálds og þfm. í Laufási í Eyjafirði. Móðir Laufeyjar var Sigríður Þorláksdóttir, prests á Skútustöðum, bróður Benedikts, afa Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra. Bróðir Vilhjálms var Þórhallur biskup, faðir Tryggva forsætisráðherra og Dóru forsetafrúar. Bróðir Guðmundar var Karl Finnbogason skólastjóri, en bróðir Laufeyjar var Halldór, skólastjóri á Hvanneyri, afi Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra.

Bróðir Finnboga var Örn, faðir Guðmundar Páls, skólastjóra Bridgeskólans og heimsmeistara í bridge.

Eiginkona Finnboga var Kristjana P. Helgadóttir læknir sem lést 1984. Þau eignuðust dótturina Helgu Laufeyju og fósturdóttur, Selmu Jónsdóttur.

Finnbogi lauk stúdentsprófi frá MR 1943 og cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1949. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 1961.

Finnbogi kenndi um árabil, var m.a. stundakennari við MR, aðstoðarkennari við Manitobaháskóla og sendikennari við Óslóarháskóla og Björgvinjarháskóla. Hann var einnig dósent við HÍ um tíma. Finnbogi var landsbókavörður á árunum 1964-94. Eftir hann liggur fjöldi ritverka, frumsamin og þýðingar. Hann annaðist útgáfu fjölda rita, m.a. fornrita og rita föður síns.

Finnbogi sat í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og var heiðursfélagi þess, formaður Félags íslenskra fræða og forseti Hins íslenska þjóðvinafélags. Hann var formaður byggingarnefndar Þjóðarbókhlöðunnar frá 1970.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 8. janúar 2016, bls. 35.

Staðir

Menntaskólinn í Reykjavík Nemandi -1943
Háskóli Íslands Háskólanemi -1961
Menntaskólinn í Reykjavík Menntaskólakennari -
Háskólinn í Manitoba Háskólakennari -
Háskóli Íslands Háskólakennari -
Háskólinn í Ósló Háskólakennari -
Háskólinn í Björgvin Háskólakennari -

Tengt efni á öðrum vefjum

Háskólakennari, háskólanemi, landsbókavörður, menntaskólakennari og nemandi
77 hljóðrit

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 8.01.2016