Engel Lund 14.07.1900-15.06.1996

<p>Engel (Gagga) Lund fæddist í gamla apótekarahúsi Reykjavíkurapóteks við Thorvaldssenstræti við Austurvöll 14.7. 1900. Foreldrar hennar voru af dönskum ættum en þau komu hingað til lands, nýgift, árið 1899, og eignuðust hér þrjú börn, Göggu, Henrik og Lise, áður en þau fluttu af landi brott, árið 1911. Foreldrar hennar voru Michael Lars Lund, lyfsali í Reykjavíkurapóteki, og k.h., Emilie Marie Magdalene Hansen húsfreyja.</p> <p>Gagga var ógift og barnlaus en átti fjölda vina hér á landi. Æskuárin við Austurvöll urðu til þess að hún bar hróður Íslands og íslenskra þjóðlaga víða um heim. Hún lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1919 og lagði síðan stund á söngnám í Kaupmannahöfn, París og Þýskalandi.</p> <p>Gagga varð brátt víðfræg þjóðlagasöngkona og var á nær stanslausum tónleikaferðalögum frá 1933. Hún settist síðan að í London í síðari heimsstyrjöldinni og starfaði þar um langt árabil.</p> <p>Gagga var vön að ljúka öllum tónleikum sínum á íslensku þjóðlagi og oftast var það lagið Litlu börnin leika sér, sem varð fyrir valinu.</p> <p>Gagga flutti svo aftur til Íslands þegar hún hætti að syngja opinberlega árið 1960. Hún kenndi lengi við Tónlistarskólann í Reykjavík, tók nemendur í heimakennslu fram undir nírætt og var afar áhrifaríkur, ástsæll og virtur kennari, alla tíð. Hún gaf út plötu og bók um íslensk þjóðlög og skýringar við þau árið 1960.</p> <p>Þess má geta að Sigurður Nordal skrifaði þekkta grein um Göggu í tímaritið Unga Ísland árið 1947. Greinin ber heitið Litla stúlkan í apótekinu og var skrifuð í tilefni af fyrstu tónleikaferð hennar til Íslands. Sú grein birtist síðar í Félagsbréfum Almenna bókafélagsins 1961 og í Morgunblaðinu 1980.</p> <p>Gagga var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, m.a. fyrir kennslustörf og þátt sinn í að kynna íslensk þjóðlög á erlendri grund.</p> <p align="right">Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 14. júlí 2015, bls. 27.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 14.07.2015