Herdís Anna Jónasdóttir 26.10.1983-

<p>Herdís Anna er fædd og uppalin á Ísafirði, þar sem hún lagði stund á fiðlu-, píanó- og söngnám. Að loknu stúdentsprófi hélt söngnámið áfram við Listaháskóla Íslands hjá Elísabetu Erlingsdóttur og lauk Herdís þaðan B.Mus-prófi vorið 2006. Þá lá leiðin til Berlínar þar sem hún stundaði nám við Hanns-Eisler tónlistarháskólann hjá Brendu Mitchell, Juliu Varady og Önnu Samuil. Sumarið 2010 lauk Herdís Anna Diplom-prófi frá skólanum, en fékk inngöngu í Konzertexamen-nám við sama skóla, sem hún stundar nú ásamt því að starfa sem söngkona.</p> <p>Herdís hefur komið víða fram hér heima og erlendis, bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum. Í Berlín hefur hún m.a. sungið við Staatsoper Unter den Linden, Komische Oper og Neuköllner Oper. Meðal hlutverka Herdísar má nefna Adele (Leðurblakan), Mélisande (Pelléas et Mélisande), Susönnu (Brúðkaup Fígarós), Zerlinu (Don Giovanni), Romildu (Xerxes), Gildu (Rigoletto) og Blumenmädchen (Parsifal). Hún söng hlutverk Pamínu (Töfraflautan) á Fjölskyldu- og skólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2010. Nýlega söng hún hlutverk Woglinde í nýstárlegri uppfærslu á Rínargulli Wagners í Berlín og Sviss. Á síðastliðnu ári ár hélt hún, ásamt Semion Skigin píanóleikara, sína fyrstu ljóðatónleika (Blómatónar) á Íslandi og kom fram á Sumartónleikum í Skálholti ásamt Solistenensemble Kaleidoskop. Herdís hefur lagt áherslu á flutning nútímatónlistar og m.a. tekið þátt í flutningi á Les Illuminations eftir Britten, Pierrot lunaire eftir Schönberg og Madrigals eftir Crumb. Einnig hefur hún frumflutt verk eftir Hauk Tómasson, Kjartan Sveinsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson o.fl. Herdís hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, m.a. úr Styrktarsjóði VISA og Rótarý á Íslandi. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Bjartasta vonin árið 2011.</p> <p align="right">Af vef Íslensku óperunnar (15. mars 2016)</p>

Staðir

Tónlistarskóli Ísafjarðar Tónlistarnemandi -
Listaháskóli Íslands Háskólanemi -2006
Hanns Eisler tón­list­ar­há­skól­i í Berlín Háskólanemi 2006-

Tengt efni á öðrum vefjum

Fiðluleikari , háskólanemi , píanóleikari , söngkona og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.03.2016