Jón Stefánsson (Jón Aðalsteinn Stefánsson, Jón í Möðrudal) 22.02.1880-15.08.1971

<p>Hann andaðist í sjúkrahúsi Seyðisfjarðar á 92. aldursári og hafði þá kennt sér meins um skeið, en var annars heilsuhraustur alla ævi. Hann var jarðsettur í heimagrafreit að Möðrudal, við hlið konu sinnar, 21. ágúst [1971], að viðstöddu miklu fjölmenni hvaðanæva að.</p> <p>Faðir Jóns Aðalsteins, en svo hét hann fullu nafni, var Stefán bóndi í Möðrudal, Einarsson, bónda að Brú á Jökuldal. Móðir Jóns var síðari kona Stefáns, Arnfríður Sigurðardóttir, hreppstjóra að Ljósavatni. Var Möðrudalsheimili þeirra Stefáns og Arnfríðar eitt mesta umsvifa- og efnaheimili á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Stefán dó 1916 og Arnfríður 1917. Tveimur árum síðar keypti Jón Möðrudal af samörfum og bjó þar síðan. Hafði hann áður búið að Víðidal á Efra-Fjalli, Möðrudal, Rangárlóni á Jökuldalsheiði og Arnórsstöðum á Jökuldal.</p> <p>Kona Jóns var Þórunn Vilhjálmsdóttir, alþingismanns á Hrappstöðum í Vopnafirði, f. 1874. Hún var afkomandi Bjargar frá Reynistað, Halldórsdóttur, systur þeirra Reynistaðabræðra. Þórunn var mikilhæf og ágæt kona, gestrisin með afbrigðum og sannur vinur vina sinna. Var sambúð þeirra hjóna til fyrirmyndar, enda hlutur húsfreyjunnar að stjórn hins stóra heimilis rómaður að verðleikum. Hún lézt 1944.</p> <p>Jón Aðalsteinn fæddist að Ljósavatni, en fluttist í bernsku með foreldrum sínum að Möðrudal. Hafði faðir hans flutzt búferlum frá Möðrudal að Ljósavatni (1877) og sett þar saman bú. En Stefán undi þar ekki hag sínum, taldi létt undir bú og landkosti rýra. Var þó Ljósavatn talið vildisjörð „niðri i sveitum“, eins og stundum er að orði komizt í Möðrudal. Það er og eftirtektarvert, að á harðindaárunum 1880—90, þegar erfitt árferði svarf hvað sárast að landi og þjóð, þá voru uppgangsár í Möðrudal; bú Stefáns óx þá og dafnaði jafnt og þétt, og dró að sjálfsögðu ekki úr þeirri þróun, þegar seyrði úr klakaböndum. Harðindaárin virtust með öllu ganga þar hjá garði. Veitir þetta nokkra vitneskju um landgæði í Möðrudal, þessari hæstu byggð landsins. (Að vísu voru nokkrar jarðir hærra yfir sjó í byggð á Jökuldalsheiði til skamms tíma, en þær eru nú allar komnar í eyði).</p> <p>Þrátt fyrir landgæði er við margþætta örðugleika að stríða í Möðrudal, langir aðdrættir og ferðalög (15 km til næsta bæjar og aðrir 20 km til þar næsta bæjar), óblíð veðrátta, erfið fjárgæzla og heyskapur torsóttur, svo fátt eitt sé nefnt. Kartöflur og ber vaxa þar ekki, enda stórhríðar og næturfrost engar undantekningar, á hvaða árstíma sem er. En veðurblíða er líka með eindæmum í Möðrudal, og mér er nær að halda, að ekki geti meiri náttúrufegurð á okkar fagra landi en þar. Fjallahringur er fádæma víður og ber þar hæst fjalladrottninguna, Herðubreið, Dyngjufjöll og Kverkfjöll í norðurjaðri Vatnajökuls. En um þetta er erfitt og líklega ókleift að dæma og dómendur e.t.v. hlutdrægir, ósjálfrátt þó.</p> <p>Jón í Möðrudal sannaði það ótvírætt, að hann hafði í fullu tré við erfiðleika þá, sem að steðjuðu í langri og þrotlausri lífsbaráttu, enda var kjarkur hans og þrek hartnær ósveigjanlegt. Ekki varð á traustari og öruggari förunaut kosið hvort sem um var að ræða svaðilfarir á fjalla- eða jökulferðum, dýrðlegar sumarferðir um Möðrudalsöræfi eða í hina fágætu öræfavin Fagradal, hvanngrænan, unaðsfagran og einstæðan, á hinni miklu eyðimerkurhásléttu milli Jökulsár á Fjöllum og Kreppu annars vegar og Jökulsá á Brú hins vegar. Heyrði ég margar sögur um mannkosti Jóns á slíkum ferðum. Átti ég einnig því láni að fagna að taka þátt í nokkrum þess háttar leiðöngrum með Jóni, er ég dvaldist í Möðrudal um skeið, nokkrum sinnum, á yngri árum og síðar. Tókst þá með okkur vinátta, sem hélzt æ síðan.</p> <p>Þegar vanda bar að höndum, hafði Jón jafnan ráð undir hverju rifi í smáu sem stóru. Hann var hjálpsamur öllum þeim sem á einhvern hátt áttu um sárt að binda og barngóður, svo að af bar; hreinn og beinn í skiptum við aðra menn og undirhyggjulaus með öliu. Hann var alla ævi reglumaður hinn mesti og hafði óbeit á hvers konar óhófi.</p> <p>Jón var hagleiksmaður við hvers konar smíð, og lék allt slíkt í höndum hans. Eru t.d. ótalin þau reiðtygi, sem hann smíðaði af mikilli snilld og eru víða í notkun, mjög rómuð fyrir gæði.</p> <p>Jón smíðaði sjálfur, á sinn kostnað, Möðrudalskirkju þá, sem nú stendur, og málaði sjálfur altaristöfluna. Hann var ágætlega listhagur að eðlisfari, listmálari og söngvinur mikill; lék mikið á orgel, bæði í kirkju og heimahúsum, og samdi lög, einkum sálmalög, sem voru honum hugstæðust. Hann hefði vafalaust komizt langt á braut listarinnar, ef hann hefði notið hæfilegrar tilsagnar á yngri árum, en þess var því miður ekki kostur.</p> <p>Börn þeirra hjóna voru:</p> <ol> <li>Drengur, f. 1904, lézt skömmu eftir fæðingu.</li> <li>Þórlaug Valgerður, f. 1905, lézt 3 ára.</li> <li>Jóhanna Arnfríður, f. 1907, gift Jóni Jóhannessyni, fyrrum bónda að Arnarstöðum í Núpasveit, Fagradal á Hólsfjöllum og Möðrudal; þau eru nú búsett í Reykjavík.</li> <li>Stefán Vilhjálmur, f. 1908, nú búsettur I Reykjavík.</li> <li>Vilhjálmur Gunnlaugur, f. 1910, áður bóndi í Möðrudal, nú b. að Eyvindará í Eiðaþinghá.</li> <li>Þórhallur Guðlaugur Valgeir, f. 1913, bóndi í Möðrudal.</li> <li>Þórlaug Aðalbjörg, f. 1914, lézt 19 ára.</li> </ol> <p>Auk þess ólu þau hjón upp Kristínu Oddsen, frændkonu Þórunnar. Hún er gift Ólafi Stefánssyni frá Arnarstöðum í Núpasveit; þau eru búsett á Akureyri.</p> <p>Nú er lokið löngu og ströngu, en farsælu dagsverki þessa mæta og góða drengs, Jóns í Möðrudal. Hann er kominn í sinn Fagradal, og þar er honum áreiðaniega vel tekið. Vandamenn hans og vinir vænta þar fagnaðarfunda á efsta degi.</p> <p align="right">Kjartan Ragnars.<br /> <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1424701">Minningargrein</a>. Morgunblaðið&nbsp;17. september 1971.</p>

Staðir

Möðrudalskirkja Organisti 1950-1971

Erindi

Heimildarmaður/flytjandi í eftirfarandi hljóðritum

26 hljóðrit
Dags Safnmark Efni Heimildarmenn #
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Hljóðnar í runnum og reykir dvína Jón Stefánsson 1
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Ég uni á flughröðu fleyi, Jón syngur og leikur undir á orgel Jón Stefánsson 2
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Safnað ég hefi í SÍS sparisjóð Jón Stefánsson 3
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Situr vitur, hægur, hýr Jón Stefánsson 4
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Löngum var ég læknir minn Jón Stefánsson 5
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Jón syngur og leikur undir á orgel: Ber harm þinn í hljóði Jón Stefánsson 6
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Inni við hjarta þitt, háfjalladrottning, Jón syngur og leikur undir á orgel Jón Stefánsson 7
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Frjálst er hér í fjallasal, Jón syngur og leikur undir á orgel Jón Stefánsson 8
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Hér er skáld með drottins dýrðarljóð, Jón syngur og leikur undir á orgel Jón Stefánsson 9
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Söngur um tóntegundir Jón Stefánsson 10
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Fönnin úr hlíðunum fór Jón Stefánsson 11
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Sjö sinnum það sagt er mér Jón Stefánsson 12
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Forðum tíð einn brjótur brands Jón Stefánsson 15
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Vísa á móti reykingum: Fyrir hvað er sálin seld Jón Stefánsson 16
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Jón trallar danslög Jón Stefánsson 17
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Konunnar elska ég kærleikans mátt Jón Stefánsson 18
19.08.1964 SÁM 84/1 EF Það skeið sem mönnum markað er Jón Stefánsson 19
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Þá eymdir stríða á sorgfullt sinn Jón Stefánsson 21053
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Lagið á undan lærði Jón af Guðlaugu, tengdamóður sinni. Jón syngur lagið aftur Jón Stefánsson 21054
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Tónfræði heimildarmanns í ljóðum Jón Stefánsson 21055
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Sjö sinnum það sagt er mér Jón Stefánsson 21056
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Samtal um lagið við Sjö sinnum það sagt er mér sem Jón lærði af gamalli konu. Hann segir að hann eig Jón Stefánsson 21057
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Forðum tíð einn brjótur brands Jón Stefánsson 21058
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Minnst á söngfræði heimildarmanns, vísurnar eru eftir hann en lagið úr Gluntarne Jón Stefánsson 21059
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Aldamótaljóð: Hvað er líf og hvert er farið Jón Stefánsson 21060
28.08.1969 SÁM 85/328 EF Spjall um heimildarmann sjálfan; nám hans hjá Magnúsi Einarssyni á Akureyri Jón Stefánsson 21061

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bóndi , organisti og tónlistarmaður

Eiríkur Valdimarsson uppfærði 24.02.2021