Einar Kristjánsson 24.11.1910-24.04.1966

<p>Einar Kristjánsson fæddist í Reykjavík 24. nóvember 1910. Að loknu stúdentsprófi hélt hann til söngnáms í Þýskalandi, þar sem hann stundaði nám við óperuskólann í Dresden. Að því námi loknu var hann ráðinn sem lýrískur tenór til Óperunnar í Dresden og starfaði þar til 1936. Þaðan lá leiðin í Óperuna í Stuttgart, þar sem hann var í tvö ár, síðan í Óperuna í Duisburg og að lokum í Hamborgaróperuna. Þar var hann fastráðinn frá 1942 til 1946. Á þessum árum söng hann einnig um lengri eða skemmri tíma við óperuhúsin í Berlín, München, Vín, Stokkhólmi og víðar. Einar kvæntist þýskri konu af grískum ættum, Mörthu Papafoti, árið 1936 og eignuðust þau dæturnar Valgerði og Brynju</p> <p>Hamborg varð hart úti í árásum heimsstyrjaldarinnar og ástand þar við stríðslok mjög erfitt. Einar starfaði engu að síður út ráðningartíma sinn við Hamborgaróperuna, en ákvað þá að leita á önnur mið. Hann var mjög á faraldsfæti næstu ár, kom meðal annars fram í Óperunum í Stokkhólmi og Vín og dvaldist um tíma í Mílanó, ekki síst til að dýpka þekkingu sína og ná betri tökum á söngstílnum ítalska, bel canto. Árið 1949 var hann svo ráðinn til Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og starfaði þar í þrettán ár. Hann söng tenórhlutverkin í mörgum óperum Verdis, Puccinis og Mozarts, en einn stærsti sigur hans var þó túlkun hans á titilhlutverkinu í gamanóperu Benjamins Britten, Albert Herring, árið 1953. Þó að Einar væri klassískt skólaður og héldi sig jafnan innan síns afmarkaða sviðs í óperunni, vafðist nútímaóperan ekki fyrir honum.</p> <p>Einar Kristjánsson var afar fjölhæfur söngvari; jafnvígur á óperusöng í hvers konar stíl, óratóríur og ljóðasöng. Hann lagði sérstaka rækt við ljóðasönginn og fram að stríðsbyrjun hélt hann á hverju ári ljóðatónleika víðs vegar um Þýskaland. Röddin var sérlega blæfögur, hljómmikil jafnt á efra sem neðra sviði, í senn þýð og máttug, tónnæmi og tækni óbrigðul. Fyrstu söngskemmtun sína í Reykjavík hélt hann árið 1933, þegar hann var enn við nám, og eftir það kom hann oft til Íslands að syngja. Meðal annars flutti hann ljóðaflokk Schuberts, Vetrarferðina, í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll árið 1946 við píanóleik dr. Victors Urbancics. Má hér vitna til orða Jóns Þórarinssonar tónskálds sem segir Einar, fyrstan íslenskra söngvara, hafa „að öðrum alveg ólöstuðum, tileinkað sér til fulls hina öguðu list ljóðasöngsins einsog hún verður hreinust og tærust." Í Þjóðleikhúsinu söng hann þrjú hlutverk: Gabriel von Eisenstein í Leðurblökunni árið 1952, Alfred Germont í La traviata árið 1953 og Danilo greifa í Kátu ekkjunni árið 1956.</p> <p>Þó að Einar hefði enn fulla burði sem söngvari ákvað hann að hætta að syngja árið 1962, rétt rúmlega fimmtugur. Hann fluttist þá heim ásamt fjölskyldu sinni og stundaði söngkennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík til dauðadags. Hann lést í Reykjavík 24. apríl 1966 eftir skammvinn veikindi.</p> <p align="right">Af vef Leikminjasafns Íslands.</p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkennari , söngvari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.09.2013