Björn Franzson 07.06.1906-07.02.1974

<p>... Björn var fæddur 7. júní 1906 í Engelsviken í Onsöy í Noregi. Foreldrar hans voru hjónin Franz Johannessen og Guðrún Björnsdóttir, síðar búsett á Dalvik. Björn varð stúdent frá Menntaskólanum i Reykjavik árið 1927, stundaði síðan nám í eðlisfræði og stærðfræði í Danmörk og Þýskalandi á árunum 1927-30. Þegar heim kom, var heimskreppan í algleymingi og fárra starfa völ fyrir mann með sérmenntun Björns önnur en helst kennsla, sem hann stundaði nokkuð. Hann gerðist starfsmaður við Ríkisútvarpið 1933 og starfaði þar til 1946, en varð síðan fréttaritari Útvarpsins í Stokkhólmi á árunum 1947-53. Björn sóttist lítt eftir frama og kom samt nokkuð við sögu á opinberum vettvangi. Hann skrifaði margt í blöð og tímarit, einkum um menningarmál, m.a. í Rauða penna, enda var hann einn af traustum stuðningsmönnum þess rits. Mest verka hans í rituðu máli var þó Efnisheimurinn (1938), stórt rit um heimsmynd samtíðarinnar og mjög vandað bæði að efni og orðfæri. Þá tók Björn lengi þátt í stjórnmálum, vann mikið og fórnfúst starf í Kommúnistaflokknum og síðar Sósíalistaflokknum, reyndar meir af skyldurækni við grundaðar skoðanir sínar en löngun til mannaforráða ...</p> <p>... Þegar Björn var kominn fram undir miðjan aldur, tók hugur hans æ meir að hneigjast að tónlist, og þar fann þessi fjölhæfi maður loks sitt kjörsvið. Hann tók til við nám í tónfræði og tónsmíð í Reykjavík og hélt því síðan áfram við Tónlistarháskólann í Stokkhólmi í sex ár (1947-53). Eftir að hann kom heim, mun hann hafa helgað ótaldar tómstundir sinar þessari grein. Hann samdi aðallega ljóðalög. Þau fáu, sem fram að þessu hafa komið út, bera vott um ákaflega vandað handbragð og næmt ljóðrænt skyn, sem minnir á þýskan „Lieder“. Veit ég, að Björn átti enn margar hugmyndir, sem honum entist því miður ekki aldur til að vinna úr ...</p> <p align="right">Gísli Ásmundsson. Úr minningargrein í Þjóðviljanum 15. febrúar 1974, bls. 7.</p> <p>Björn var lengi tónlistargagnrýnandi Þjóviljans.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 12.05.2014