Ingimundur Sveinsson (Ingimundur fiðla, Ingimundur Sveinsson sönglistarmaður) 01.09.1873-31.08.1926

Foreldrar Ingimundar voru Karitas Þorsteinsdóttir (27.07. 1852 - 29.07. 1928) og Sveinn Ingimundarson (16.11. 1842 - 13.04. 1908). Þríbýli var á jörðinni: Efri-Ey, Miðbær og Hóll. Bændur voru flestir fátækri í Meðallandi á þessum tíma. „Segja má, að Karitas og Sveinn hafi tíðum verið milli húsgangs og bjargálna. Ómegð var mikil, börnin fæddust þétt, þrettán alls. Sum voru tekin í fóstur á nágrannabæi og komu lítið heim aftur“ (Ingimundur fiðla og fleira fólk, bls. 13).

Börn Karitasar og Sveins voru:

 1. Þórunn (17.07. 1872 - 14.11. 1965) í Reykjavík.
 2. Ingimundur (01.09.1873 - 31.08.1926) í Reykjavík.
 3. Helga (23.07. 1875 - 16.11. 1918) á Seltjarnarnesi – Helga dó í spænsku veikinni.
 4. Þorsteinn Hermann (23.09. 1876 - 01.01. 1877) í Meðallandi.
 5. Þorsteinn Hermann Kjarval (04.03. 1878 - 03.02. 1967) í Reykjavík – Þorsteinn Hermann var skírður Kjarval en yngri bræður hans þrír tóku það nafn upp síðar.
 6. Gestur Sveinbjörn (20.05. 1879 - 28.03. 1907) – Gestur drukknaði á Selvogsbanka á samt félögum sínum á kútter Georg.
 7. Guðlaugur (29.06. 1881 - ? 1905) í Reykjavík.
 8. Bjargmundur (30.08. 1883 - 13.09. 1964) í Reykjavík.
 9. Jóhannes Kjarval listmálara (15.10. 1885 - 13.04. 1972) í Reykjavík.
 10. Karel (Kjarval) (17.09. 1887 - 02.08. 1969) – var bókbindari og lést í Chicago í Bandaríkjunum.
 11. Sveinbjörg (28.08. 1889 - 11.12. 1973) í Kanada.
 12. Olgeirína (08.03. 1892 - 11.02. 1935) í Kanada.
 13. Gunnar (Kjarval) (11.08. 1893 - ? 09. 1966) – flutti til Kanada 1912 og lést þar. Gunnar var í siglingum, stundaði meðal annars sjómennsku og hvalveiðar við Afríku; vann þar einnig við gullgröft um árabil. Í Seattle í Bandaríkjunum vann hann síðar við gullsmíði og demantaiðn.

Upplýsingar fengnar frá Jóni Þórði Ólafssyni en Þórunn Sveinsdóttir var amma hans.

„Á áratugunum fyrir og eftir aldamótin síðustu var tími listrænna förumanna, sem settu svip á þjóðlífið og voru víðast hvar aufúsugestir. Kunn eru nöfn eins og Símon Dalaskáld, Gvendur dúllari og Sæfinnur með sextán skó, en í þessum hópi var einnig tónmeistarinn Ingimundur fiðla. Ingimundur var Sveinsson, bróðir Jóhannesar Kjarvals meistara á myndlistarsviðinu. Á fyrstu áratugum þessarar aldar ferðaðist hann víða um land, lék á fiðlu og skemmti fólki ...“ (sjá nánar Tónmeistarinn Ingimundur fiðla).

Í bókinni Komiði sæl (Vaka, Reykjavík 1983) ræðir Vilhelm G. Kristinsson við Siguð Sigurðsson um lífshlaup hans og ævintýri. Þar (bls. 133-135) segir Sigurður sögu sem hér passar að vitna til:

Þegar ég hafði verið tvö ár í Tónlistarskólanum [Sigurður byrjaði í Tónlistarskólanum haustið 1939] kom kunningi minn til mín með það sem eftir var af gamalli fiðlu. Þetta var bara belgurinn og hálsinn og vantaði skrúfur, fingrabretti, stól og annað tilheyrandi og líka vantaði í hana sálina.

Hann spyr hvort ég geti gert mér eitthvert gagn af þessu. Mér líst ekki alltof vel á garminn, en vil samt athuga hvort hægt sé að gera hann nothæfan og kaupi draslið á fimmtíu krónur. Belgurinn er nokkuð óvenjulegur, fallegri að lögun en til dæmis Stradivarius-fiðlurnar og þessar ítölsku, kúptari og skemmtilegri. Þetta var greinilega mikið fornaldarverkfæri, eldgamalt og farnir að trosna kantarnir á lokinu. Síðan fer ég að dunda við að lappa upp á fiðluna, milli þess sem ég æfi mig á hinn garminn, tálga til stól, kaupi fingrabretti, strengi og annað tilheyrandi, þannig að hægt er að ná úr henni hljóði.

Svo dettur það eitt sinn upp úr mér í tíma hjá Birni Ólafssyni, að ég hafi keypt þennan garm. Hann spyr, hvort það sé einhver miði innan í henni. Það er venjan að í botninum er getið um hver hafi smíðað og hvenær, hvar og svo framvegis. Nei það er ekkert slíkt í henni. „Voru engin einkenni á henni?“ spyr Björn. „Nei, nei,“ segi ég, en man þá allt í einu eftir að hafa séð þrykkt í botninn á fiðlunni orðið „STEINER“. „Steiner?“ segir Björn. „Ertu viss um þetta?“ „Ja, ég man ekki betur,“ segi ég. „Heyrðu,“ segir hann þá. „Farðu strax og náðu í fiðluna.“ Ég skondra vestur í bæ, sæki gripinn og Björn verður strax mjög hrifinn, tekur nokkra takta og segir að ýmislegt sé að, en þetta sé fyrsta flokks hljóðfæri, eða hafi verið það. Segir: „Komdu henni í viðgerð. Láttu gera við hana til bráðabirgða hjá Ívari Þórarinssyni. Þetta er greinilega hið merkasta hljóðfæri.“

Síðan fer ég að grafast fyrir um þessa fiðlu og frétti, samkvæmt góðum heimildum, að hún hafi verið flutt hingað til lands í kringum 1830, ásamt fleiri hljóðfærum. Ingimundur fiðla, bróðir Kjarvals, spilaði á þessa fiðlu í mörg ár, en síðan fór hún á flakk af ókunnum ástæðum.

Það sem gefur þessu hljóðfæri mikið gildi, er að Ingimundur skuli hafa spilað á hana. Hann er nú eiginlega með frægustu fiðluleikurum Íslendinga þótt hann færi ekki troðnar slóðir í hljóðfæraleik sínum. Hann ferðaðist um og spilaði alls konar fugla- og dýrahljóð. Ég veit ekki til þess að hann hafi spilað mikið af viðurkenndri músík, en á þessu lifði hann, fólk auraði saman og hann fékk einhverja umbun fyrir erfiðið. Hann var líkur bróður sínum málaranum, að hann fór ekki troðnar slóðir.

Þessi fiðla er með merkustu gripum sem ég hef eignast og ég á hana ennþá. Ef hér væri til hljóðfærasafn, væri ég sennilega búinn að gefa hana þangað. Mér finnst þetta sögulegur gripur, sem best væri geymdur á svona safni.

Ívar Þórarinsson gerði við fiðluna til bráðabirgða. Ég hafði ekki ráð á að láta taka hana rækilega í gegn. Það hefði verið dýrt. Hann stöðvaði hins vegar skemmdirnar. Ætlunin var alltaf að fara með fiðluna til útlanda í viðgerð og ég ætlaði mér alltaf að gera það á ferðum mínum erlendis, en það varð alltaf útundan.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 22.09.2017