Muff Worden (Ethelwyn Worden) 17.01.1943-18.08.2006

<p>Ethelwyn Worden, ævinlega kölluð Muff, fæddist í Fíladelfíu í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum 17. janúar 1943. Hún varð bráðkvödd á ferðalagi í Færeyjum 18. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Muff voru Mildred E. og Warren L. Worden og var hún þriðja af fjórum börnum þeirra. Systkini hennar eru Dexter, hann býr í Delaware, Jen, hún býr í New Mexico og Gretchen, hún er látin. Faðir Muff starfaði hjá olíufélaginu Texaco (prior), sem eftir síðari heimsstyrjöldina nefndist Petrolcaltex. Hann starfaði erlendis og var Muff eina barnið sem fætt var í Bandaríkjunum. Hún bjó frá þriggja ára aldri til fimm ára í Shanghai í Kína, frá sex ára til níu ára í Tórínó á Ítalíu og frá 13 ára til 22 ára aldurs í Lima í Perú. Muff varð stúdent í Perú 19 ára og nam að því loknu söngnám við tónlistardeild Temple háskólans, þaðan sem hún útskrifaðist.</p> <p>Muff bjó í Dover í Delawere frá 1976. Hún tók þátt í og stjórnaði mörgum sviðsverkum, meðal annars óperettum Gilberts og Sullivan og var prófessor í hörpuleik við Wesley tónlistarháskólann. Einnig stjórnaði hún almannatengsladeild skólans. Hún var ennfremur skrifstofustjóri Swedenborgsku kirkjunnar í Boston.</p> <p>Muff flutti til Seyðisfjarðar árið 1997 til afleysinga við Tónlistarskólann og í starfi organista. Þar fann hún sína paradís á jörðu, aðlagaðist samfélaginu, kenndi við Tónlistarskólana þar, á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Hún var einnig tvívegis eftir fyrsta árið organisti við Seyðisfjarðarkirkju, síðast fram á þetta ár, auk þess sem hún hljóp undir bagga í fleiri kirkjum, m.a. við tvær guðsþjónustur helgina fyrir andlátið.</p> <p>Muff kom á fót og var listrænn stjórnandi að tónleikaröðinni Bláa kirkjan, sumartónleikar, sem verið hafa í Seyðisfjarðarkirkju í níu sumur á miðvikudagskvöldum við góðan orðstír. Hún hafði þegar hafið undirbúning að 10 ára afmælistónleikaröðinni næsta ár.</p> <p align="right">Minningar. Morgunblaðið. 7. september 2006, bls. 30.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 21.04.2014