Eggert Stefánsson 01.12.1890-29.12.1962

ggert Stefánsson fæddist í Vaktarabænum við Garðastræti en húsið stendur enn á sínum stað, nú uppgert, að verða 180 ára. Þar bjuggu foreldrar Eggerts, Stefán Egilsson múrari og Sesselja Sigvaldadóttir sem var ljósmóðir í Reykjavík um langt árabil.

Í Vaktarabænum fæddust einnig bræður Eggerts,Sigvaldi Kaldalóns læknir og eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar, Guðmundur Aðalsteinn, einn helsti glímumaður landsins á sinni tíð, og Snæbjörn sem var landsþekktur togaraskipstjóri á Kveldúlfstogurunum.

Eggert fór ungur utan til söngnáms, einn fyrstu Íslendinga, fyrst til Danmerkur og Svíþjóðar en síðan til Ítalíu. Hann var af mörgum talinn með allra fremstu söngvurum okkar um skeið, fékk atvinnutilboð frá frægum óperuhúsum í Evrópu og söng víða í Evrópu og Ameríku. Hann söng auk þess töluvert inn á hljómplötur á þriðja áratugnum, fyrst í trekt í London árið 1920, en hann söng fyrstur mörg þekkustu lög Sigvalda, bróður síns.

Ólíkt sjálfstrausti Eggerts hrakaði söng hans með aldrinum. Hann kom oft til Íslands, dvaldi hér í lengri eða skemmri tíma, hélt söngskemmtanir, var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi sem lífgaði upp á mannlífið í kaffihúsum miðbæjarins, enda orðheppinn og hátt stemmdur heimsborgari sem kvartaði sáran undan menningarleysi landa sinna.

Eggert sendi frá sér m.a. fjögur bindi með titlinum „Lífið og ég“ og „Bergmál Ítalíu“. Hann var góður vinur Halldórs Laxness sem heggur býsna nærri honum með alheimssöngvaranum Garðari Hólm í Brekkukotsannál. En Stefán söng þó, Garðar gerði það ekki. Auk þess orti Steinn Steinarr lítið ljóð sem vafalaust á að lýsa vonbrigðum söngvarans með viðbrög tónleikagesta.

Eggert lést 29. desember 1962 og var jarðsettur í Flórens, háborg menningar og lista, en þar hvílir einnig Lelja, eiginkona hans.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið 1. desember 2017, bls. 27

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Rithöfundur og söngvari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.12.2017