Sigurður G. Ísólfsson 10.07.1908-31.07.1992

<p>Sigurður Ísólfsson byrjaði að aðstoða Pál Ísólfsson sem organisti í Fríkirkjunni árið 1928, meðan hann stundaði nám í úrsmíði. Hann var síðan ráðinn organisti 1936 við kirkjuna Páli til aðstoðar. Sigurður tók síðan formlega við organistastöðinni árið 1939 við fráfall Sigfúsar Einarssonar Dómorganista, en þá tók Páll við stöðu hans. Sigurður lauk störfum við Fríkirkjuna í Reykjavík árið 1983, eftir meira en 50 ára starf.</p> <p>Heimild: Ingimar Sigurðsson.</p> _______________________ <p>Þegar fregnir berast um andlát kærra vina og velgjörðarmanna setur menn hljóða, um hugann fara myndir og löngu horfnir atburðir rifjast upp. Allt tengist það samferðamanninum kæra sem nú hefur lagt upp í sína hinstu för. Segja má að hugurinn hverfi langt aftur í tímann, á vit þeirrar veraldar sem einu sinni var og aðeins lifir í minningunni.</p> <p>Þannig varð mér við þegar ég frétti lát vinar míns, Sigurðar G. Ísólfssonar. Fjörutíu ára kynni höfðum við átt, þar sem Sigurður var alltaf gefandi, en ég þiggjandi. Tvö orð koma mér fyrst í hug er ég minnist Sigurðar Ísólfssonar, en það eru orðin hlýja og velvild.</p> <p>Mér kemur fyrst í huga, þegar ég sá Sigurð í fyrsta skipti. Það var á páskadagsmorgunn árið 1950, við morgunguðsþjónustu í troðfullri kirkju. Mér varð starsýnt á þennan mann og hlustaði hugfanginn á tónana í orgeli Fríkirkjunnar sem hann lék á.</p> <p>Persónueinkennunum í orgelspili Sigurðar við guðsþjónustur í Fríkirkjunni, verður ekki lýst með orðum, stemningarnar sem hann skapaði, verða öllum er reyndu, ógleymanlegar stundir hughrifa og göfgi. Önnur mynd kemur fram í hugann, þegar við gengum til prestsins í Fríkirkjunni, minn árgangur. Við komum snemma til spurninga, Sigurður var að æfa sig á orgelið. Hann kallaði á okkur upp á söngloftið, sýndi okkur orgelið og lék fyrir okkur á það. Við þurftum margs að spyrja og hann leysti úr öllum þeim spurningum á máli sem við skildum fullkomlega. Ég held að þá hafi fyrst kviknað áhugi hjá mér á að nema orgelleik. Ég sótti mjög guðsþjónustur í Fríkirkjunni á þessum árum, sat jafnan uppi þar sem ég gat séð hverja hreyfingu Sigurðar. Mörgum árum síðar sagði hann við mig að hann hefði fylgst með mér þar sem ég sat og fundist hann þekkja mig þótt við skiptumst ekki á orðum.</p> <p>Árin liðu og ég hafði hafið nám hjá dr. Páli, bróður hans. Vetrarpart þurfti Páll að fara utan og fól Sigurði að annast kennslu nemenda sinna. Þá kynntist ég Sigurði best og minnist þessa tíma með miklu þakklæti. Við fundum öll hve annt Sigurði var um að við næðum sem bestum árangri og mörg þau heilræði sem hann gaf okkur hafa nýst okkur vel í starfi. Hann talaði mjög um starf kirkjuorganleikarans, þátt hans í guðsþjónustunni og miðlaði þar af langri reynslu. Við fórum snemma út á starfsakurinn og fundum að það sem hann hafði sagt okkur um samviskusemi og stundvísi var rétt og nauðsynlegt.</p> <p>Það var ekki lítils virði, fyrir unga menn, að hefja störf sem organistar í kirkjum og vita að alltaf mátti leita til Sigurðar með ráðleggingar og fágætar nótur. Hann átti mikið safn nótna, hélt því öllu saman í mikilli reglu, vissi alltaf hvort hann átti viðkomandi verk eða ekki. Alveg fram á þennan dag hefur það löngum verið viðkvæðið hjá starfandi organistum hér, þegar við höfum verið beðnir að leika sjaldgæf verk við athafnir: „Hefurðu talað við hann Sigurð Ísólfsson?“ Hann gat oftast leyst vandann, ef hann átti ekki nóturnar sjálfur, þá vissi hann um einhvern sem átti þær.</p> <p>Sigurður Ísólfsson var einn af stofnfélögum Félags íslenskra organleikara, en það var stofnað árið 1951. Eitt af því sem félagið gekkst fyrir í árdaga var tónleikahald í þeim fáu kirkjum sem þá höfðu orgel, tónleikaröð undir nafninu „Musica sacra“. Tónleikarnir í Fríkirkjunni vöktu athygli fyrir fjölbreytni og smekkvísi, m.a. hafði Sigurður æft með presti sínum, séra Þorsteini Björnssyni, nokkur verk sem þarna voru flutt.</p> <p>Félag íslenskra organleikara gerði Sigurð að heiðursfélaga fyrir nokkrum árum. Það kom í minn hlut að tilkynna Sigurði það fyrir félagsins hönd og boða komu mína með skjal þar uppá. „Ég verðskulda það ekki, elskan mín, ég hef ekki gert neitt fyrir þetta félag“, sagði Sigurður þá, eins fráleitt og það annars var. En þessi viðbrögð lýsa Sigurði vel, betur en margt annað. Þegar ég heimsótti þau hjón skömmu síðar, fann ég að Sigurði þótti vænt um þann vott virðingar og þakklætis, sem við með þessu vildum sýna. Á næsta aðalfundi félagsins bað Sigurður mig að lesa upp á fundinum bréf, þar sem hann þakkaði „óverðskuldaðan heiður“ og bauð félagsmönnum aðstoð sína, ef hann á einhvern hátt gæti orðið að liði. Ég gleymi aldrei viðbrögðum fundarmanna eftir að ég hafði lesið þetta bréf. Upphrópanir kváðu við á borð við: „Alltaf jafn elskulegur“ eða „blessaður öðlingurinn“.</p> <p>Sigurður fylgdist vel með því sem var að gerast þegar ný orgel komu. Alltaf hringdi hann í mig eftir útvarpsmessur og vildi gjarnan vita hvaða raddir orgelsins ég hefði notað við flutninginn. Mér þótti vænt um hvað hann sýndi störfum okkar yngri mannanna mikinn áhuga.</p> <p>Sigurður Ísólfsson er farinn fyrir móðuna miklu, en við, sem á ströndinni stöndum, þökkum samfylgdina, brautryðjandastörfin, velvildina, veganestið og vináttuna, staðráðin í að láta merkið, sem hann og hans kynslóð hóf til vegs, ekki falla. Fyrir hönd Félags íslenskra organleikara, votta ég frú Rósu Ingimarsdóttur og fjölskyldu þeirra Sigurðar, dýpstu samúð.</p> <p>Blessuð sé minningin um Sigurð G. Ísólfsson.</p> <p align="right">Kjartan Sigurjónsson. Organistablaðið 1. tbl. 24. árg. júlí 1993, bls. 3-4.</p>

Staðir

Fríkirkjan í Reykjavík Organisti -

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Organisti og tónlistarmaður

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 7.01.2018