Þórður Kristleifsson 31.03.1893-24.06.1997

Þórður fæddist á Uppsölum í Hálsasveit. Foreldrar hans voru hjónin Kristleifur Þorsteinsson, f. 1861, d. 1952, bóndi og fræðimaður á Kroppi í Reykholtsdal, og Andrína Guðrún Einarsdóttir, f. 1859, d. 1899.

Þórður ólst að mestu leyti upp á Stóra-Kroppi, en foreldrar hans fluttu þangað þegar hann var fjögurra ára gamall. Hann var við nám í skóla sr. Ólafs í Hjarðarholti veturna 1913-1915 og við söngnám í Dresden í Þýskalandi 1921-1925, Mílanó 1925-1927 og Berlín 1927.

Þegar heim var komið hélt Þórður nokkra einsöngstónleika en fór síðan að kenna söng og hélt í ferð til Þýskalands 1929 til að kynna sér söngkennslu þar í tvo mánuði.

Fyrst í stað kenndi Þórður í Reykjavík og var í kjölfarið skipaður af menntamálaráðherra til að kanna söngkennslu í skólum og kynna tillögur til úrbóta. Hann átti þannig drjúgan þátt í að efla sönglistina meðal skólafólks og alþýðunnar, og eitt af afrekum hans á því sviði var að gefa út sönglagahefti undir nafninu Skólasöngvar árið 1930. Fleiri slík sambærileg hefti áttu eftir að koma út fyrir hans tilstuðlan, með alls um fjögur hundruð sönglögum

Þórður gerðist síðan kennari við nýstofnaðan Héraðsskóla á Laugarvatni árið 1930, síðan við Menntaskólann þar og kenndi aðallega söng og þýsku til 1963 þegar hann fluttist til Reykjavíkur. Eftir það kenndi hann söng við Menntaskólann í Reykjavík. Stjórnaði hann allt að fimm kórum á Laugarvatni.

Þórður gaf út rit föður síns, sem nú eru meðal merkustu heimilda um líf og störf Borgfirðinga seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.

Þórður var kvæntur Guðrúnu Eyþórsdóttur, f. 12.3. 1897, d. 25.5. 1983, kennara. Þau eignuðust stúlku 3.10. 1936, en hún lést sama dag. Þórður lést 24.6. 1997, 104 ára að aldri, og var þá elstur íslenskra karlmanna.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 31. mars 2018, bls. 51


Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.04.2018