Þorvaldur Gissurarson -01.09.1235

Þorvaldur Gissurarson, prestur og goðorðsmaður í Hruna, fæddist um miðbik 12. aldar. Þorvaldur var af ætt Haukdæla en foreldrar hans voru Gissur Hallsson, goðorðsmaður í Haukadal, og k.h. Álfheiður Þorvaldsdóttir hins auðga Guðmundssonar. Hún var systir Guðmundar dýra. Bræður Þorvaldar voru Hallur, ábóti í Þykkvabæ, og Magnús, biskup í Skálholti.

Þorvaldur bjó í Hruna í Hrunamannahreppi frá 1182 og var helsti leiðtogi Haukdæla á fyrsta fjórðungi 13. aldar. Hann var sagður ágætur höfðingi.

Þorvaldur var prestvígður og árið 1225 eða 1226 stofnaði hann Ágústínusarklaustur í Viðey með tilstyrk Snorra Sturlusonar og fyrir hvatningu Magnúsar bróður síns. Þorvaldur hafði keypt eyna og lagði hann hana til stofnunar klaustursins. Þorvaldur varð sjálfur kanúki þar og forstöðumaður til dauðadags en var þó ekki ábóti eða príor.

Viðeyjarklaustur var fyrsta klaustrið í Sunnlendingafjórðungi. Þar var mikið menntasetur. Vitað er að þar var ágætur bókakostur og þar voru líka skrifaðar ýmsar bækur. Algengt var að aldraðir höfðingjar gengju í klaustur síðustu æviár sín og vitað er að Gissur jarl, sonur Þorvaldar, hafði hug á að gerast munkur í Viðey en entist ekki aldur til.

Þorvaldur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jóra Klængsdóttir, d. 1196, dóttir Klængs biskups í Skálholti, og Yngvildar Þorgilsdóttur. Synir þeirra voru Guðmundur, Klængur djákn, Björn goðorðsmaður á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Einar djákn og Teitur prestur í Bræðratungu í Biskupstungum og lögsögumaður.

Seinni kona Þorvaldar var Þóra yngri Guðmundsdóttir, en foreldrar hennar voru Guðmundur gríss Ámundason, allsherjargoði og prestur á Þingvöllum, og Sólveig Jónsdóttir. Börn þeirra voru Halldóra, eiginkona Ketils Þorlákssonar, prests og lögsögumanns í Hítardal, Gissur jarl og Kolfinna.

Þorvaldur lést í Viðey 1. september 1235.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 1. september 2015, bls. 27.


Tengt efni á öðrum vefjum

Goðorðsmaður og prestur

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.09.2015