Stefán Ólafsson 1619-29.08.1688

Stefán Ólafsson, prestur og skáld, fæddist í kringum árið 1619 á Kirkjubæ í Hróarstungu, N-Múl. Faðir hans var séra Ólafur Einarsson skáld í Kirkjubæ, en faðir Ólafs var Einar Sigurðsson prófastur og skáld í Heydölum. Móð- ir Stefáns var Kristín Stefánsdóttir prests í Odda, Gíslasonar.

Stefán lærði ungur hjá föður sínum, fór í Skálholtsskóla um 1638-39 og varð stúdent 1641. Hann var síðan í þjónustu Brynjólfs Sveinssonar biskups. Stefán fór utan 1643 og var skráður námsmaður í Háskólanum í Kaupmannahöfn haustið það ár. Hann vann þar einnig að þýðingum fyrir danska fornfræðinginn Ole Worm og var boðin staða í Frakklandi hjá Mazarin kardínála við þýðingar á fornritum. Hann afþakkaði það boð að ráði Brynjólfs biskups og varð attestatus, þ.e. fékk embættispróf í guðfræði.

Hann kom heim til Íslands 1648, fékk Vallanes á Fljótsdalshéraði, tók við staðnum vorið 1649 og hélt staðnum til æviloka. Hann var prófastur í Múlaþingi frá 1671 til æviloka.

Stefán var prýðilega vel gefinn maður og vel að sér. Hann hefur löngum verið talinn annað höfuðskáld Íslendinga á 17. öld, ásamt Hallgrími Péturssyni, einkum þó í veraldlegum kveðskap. Hann samdi m.a. Kvæðin Meyjarmissir, en fyrsta lína þess er „Björt mey og hrein“, og Raunakvæði, sem hefst á orðunum „Ég veit eina Baugalínu“.

Stefán var söngmaður mikill, söngfróður og samdi lög, var hið mesta karlmenni að burðum en þjáðist mjög af þunglyndi seinni hluta æviskeiðsins og varð að halda aðstoðarprest.

Heildarútgáfa á kvæðum Stefáns kom tvisvar út á 19. öld ásamt ævi- sögu og kom úrval ljóða hans, Ljóðmæli, út 1948.

Kona Stefáns var Guðrún Þorvaldsdóttir, en foreldrar hennar voru Þorvaldur Ólafsson bóndi á Auðbrekku í Hörgárdal og Halldóra yngri Jónsdóttir. Þau eignuðust átta börn, tvö syni sem urðu báðir prest- ar og sex dætur.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 29. ágúst 2015, bls. 43.

Staðir

Vallaneskirkja Prestur 1648-1688

Erindi


Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 16.05.2019