Guðmundur Vilbergsson (Guðmundur Viggó Vilbergsson) 03.12.1924-25.09.1991

... Faðir Guðmundar hafði yndi af tónlist, og gerði hann nokkuð af því að smíða hljóðfæri. T. d. var fyrsta hljóðfæri Guðmundar smíðað af honum – var það fiðla, sem þó ekki lifði lengi, þar sem Guðmundur var full harðhentur við hana.

Orgel var á heimilinu og sat Guðmundur löngum við það og lék danslög, einnig áskotnaðist honum tvöföld harmonika, sem hann lék oft og mikið á. – Nokkru innan við fermingu var hann farinn að leika á dansskemmtunum, og eftirminnanlegasta ballið var á fermingardaginn hans. Þá stóð yfir einhverskonar uppeldisfræðingaþing á Flateyri, sem mikið ræddi um vandamál æskunnar – og hélt svo ball á eftir, þar sem Guðmundur, aðeins þrettán ára gamall, lék í fermingarskrúðanum lengi fram eftir nóttu – á orgel.

Guðmundur segist hafa verið 15-16 ára, þegar hann eignaðist nothæfa harmoniku og var hann nokkrum vikum síðar ráðinn til að leika á Hótel Helgafelli í Stykkishólmi. Hann var ráðinn upp á fast mánaðarkaup og lék hann þar í tæpt ár.

Hann lék á böllum um helgar og svo ef eitthvað var um að vera á hótelinu, þá var hann sendur niður í sal til að skemmta gestunum.

Þá gengdi hann og starfi heillar hljómsveitar, þegar hann lék í sjónleik, sem þarna var sýndur – lék á milli þátta og líkaði Hólmurum vel.

Síðan fór hann til Ísafjarðar, þar sem hann vann alla algenga vinnu og spilaði um helgar. Þar komst hann fyrst í kynni við trompet, og var sá svo lasburða, að heftiplástur hélt honum saman hér og hvar.

Guðmundur, sem erft hefur eiginleika föður síns, að vera lagtækur, gerði við hljóðfærið eftir því sem við var komið og var nú byrjað að blása.

Það varð til þess að honum var sagt upp húsnæðinu og var þá haldið til Reykjavíkur.

Hann hafði ekki verið lengi í Reykjavík, þegar hann var farinn að leika á harmonikuna á dansleikjum hingað og þangað í bænum, og man ég, að leikur hans vakti mikla athygli – tæknin var mjög mikil, og hafði slíkt yfirleitt ekki heyrzt hjá reykvískum harmonikuleikurum.

Aftur á móti fór tvennum sögum af trompetleik Guðmundar, meira að segja lá við að hætt væri við eitt ball í Grindavík, þar sem Guðmundur lék, eftir að hann hafði blásið tvö „lög“ í trompetinn.

Guðmundur tók að læra útvarpsvirkjun, sem hann þó hætti við, þegar séð var fram á, að hann ekki gat tveimur herrum þjónað – og gaf sig alveg að hljóðfæraleiknum, enda var hann nú orðinn dágóður trompetleikari, sem m. a. varð til þess að veturinn 1945-46 var hann ráðinn í hljómsveit Bjarna Böðvarssonar í Tjarnarcafé, þar sem Jóhannes Þorsteinsson lék einnig.

Bjarni hætti næsta vetur og tók Baldur Kristjánsson við hljómsveitinni og var Guðmundur áfram hjá honum.

Veturinn 1947-48 lék Guðmundur í K. K. sextettinum í Mjólkurstöðinni og sýndi hann þá bezt, hversu ágætur trompetleikari hann var. Vil ég segja, að þá hafi hann verið hvað beztur. Síðan hefur honum vart gefizt tími til að æfa með neinni hljómsveit, breytingarnar hafa verið örari en það. Hann var hálfan veturinn '48-'49 hjá Birni R. og síðari helminginn í Mjólkurstöðinni, með Ólafi Péturssyni og fleirum ...

Íslenskir hljóðfæraleikarar. Svavar Gests. Jazzblaðið. 1. júní 1950, bls. 4-5.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar Trompetleikari og Harmonikuleikari 1946-09/11 1947-09/11
Hljómsveit Björns R. Einarssonar Trompetleikari 1948-09-06 1949-01

Tengt efni á öðrum vefjum

Bifreiðasmiður, harmonikuleikari og trompetleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 7.12.2015