Reynir Jónasson 26.09.1932-

<p>Reynir fæddist á Helgastöðum i Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 26.9. 1932. Hann var farinn að leika dans- og dægurlög á orgel er hann var 10 ára og lærði fljótt nótnalestur af sjálfsdáðum og með aðstoð föður síns, sem var sjálflærður organisti og þjónaði lengi Neskirkju í Aðaldal.</p> <p>Reynir stundaði nám við MA, eignaðist þá afgamlan saxófón, fékk nokkurra vikna undirstöðumenntun á hljóðfærið hjá Jose M. Riba sem var á Akureyri um þær mundir, lék á saxófóninn í skólahljómsveitinni og lauk stúdentsprófi 1953. Seinna fjárfesti Reynir í harmóniku sem átti eftir að verða honum mikilvægt atvinnutæki í gegnum árin, en hann hefur lengi verið með þekktustu harmónikuleikurum landsins, hefur engu gleymt og færir enn góð samkvæmi í æðra veldi með nikkuna að vopni, ekki síst þegar fjöldasöng ber á góma.</p> <p>Reynir lék með danshljómsveitum á Akureyri, m.a. Ingimar og Finni Eydal. Hann hugði á dýralæknanám í Osló en lenti þar í góðum nikkufélagsskap og lagði þá fljótlega ásetning um dýralækningar á hilluna, kom síðan aftur heim og lék með Hljómsveit Svavars Gests í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll.</p> <p>Reynir stundaði nám í orgelleik við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjá Páli Kr. Pálssyni 1957-61, var í einkatímum hjá Jörgen Ernst Hansen í Kaupmannahöfn 1961-62 og í píanónámi hjá Axel Arnfjörð, stundaði nám í Tónskóla þjóðkirkjunnar hjá Róbert A. Ottóssyni 1960-61 og 1962-63, sótti námskeið í stjórn lúðrasveita hjá Páli P. Pálssyni og Jan Moravek 1964 og stundaði framhaldsnám í orgelleik hjá Hauki Guðlaugssyni, Antonio Corveiras og Pavel Smid. Hann nam söng hjá Guðrúnu Tómasdóttur, hefur sótt ýmis námskeið fyrir tónmenntakennara og organista, lauk prófi í 8. stigi í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 1983 og stundaði orgelnám hjá Gerhard Dickel í Hamborg haustið 1996.</p> <p>Reynir flutti til Húsavíkur 1963 og kvæntist þá Kolbrúnu Kristjánsdóttur frá Hafnarfirði. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans á Húsavík 1963-71, stjórnandi lúðrasveitar á Húsavík 1963-69, organisti og söngstjóri við Húsavíkurkirkju 1963-71, tónmenntakennari við Barnaskólann á Húsavík 1964-71 og lék á nikku og píanó fyrir Leikélag Húsavíkur þegar svo bar undir.</p> <p>Reynir flutti aftur suður 1971 og lék þá með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar í Súlnasalnum næstu árin, lék auk þess með Hljómsveit Hauks Morthens og með Bubba Morthens. Hann var tónmenntakennari við Fossvogsskóla 1971-72, við Álftamýrarskóla 1971-84, organisti við Fríkirkjuna í Hafnarfirði 1972-73 og við Neskirkju í Reykjavík frá 1973-2002.</p> <p>Reynir lék í nikkudúett með Sigurði heitnum Hallmarssyni á Húsavík, hefur leikið inn á þrjár harmónikuplötur, 1972, 1974 og 1987, hefur leikið á harmoniku á fjölda jólatrésskemmtana, hefur verið fastráðinn harmonikuleikari á jólatrésskemmtunum forseta Íslands frá 1984, er handhafi heiðurspenings Vigdísar Finnbogadóttur, heiðursfélagi Heiltóns, hollvinasamtaka Tónlistarskóla Húsavíkur, Félags harmonikuunnenda í Reykjavík og Sambands íslenskra harmonikuunnenda. Hann hefur haldið orgeltónleika, m.a. í Neskirkju, Húsavíkurkirkju, Hafnarfjarðarkirkju, Reykholtskirkju og Hallgrímskirkju, en síðustu orgeltónleikar hans voru í Neskirkju í þann mund er hann var að ljúka þar störfum. Það varð tilefni upptöku sem nú var að koma á geisladisk 13 árum síðar. Halldór Víkingsson sá um vel heppnaða upptöku. Hér er um að ræða verk eftir Jón Ásgeirsson sem samdi það sérstaklega fyrir nýja NOACK-orgelið í Neskirkju. Nefnist verkið Stutt fantasía, kóralforspil og passacaglia. Einnig eru þar verk eftir J.S. Bach, Marcel Dupré, Bach-Gounod og César Franck.</p> <p align="right">Úr Með tónlistina í blóðunu. Morgunblaðið. 26. september 2017, bls. 26-27</p>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Svavars Gests Saxófónleikari og Harmonikuleikari 1960

Viðtöl

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 26.09.2017