Ólafur Kristjánsson 07.12.1935-

Ólafur fæddist á Ísafirði og ólst þar upp. Hann lauk sveinsprófi í málaraiðn frá Iðnskólanum á Ísafirði 1956, öðlaðist meistarabréf í málaraiðn 1960, lauk námi sem tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1962 og stundaði framhaldsnám í blásturshljóðfæraleik og tónfræði við sama skóla 1963.

Ólafur var málarasveinn hjá föður sínum Kristjáni Friðbjörnssyni 1952-56 og fékk meistarabréf 1960. Á starfsferlinum útskrifaði Ólafur þrjá málarasveina.

Ólafur bjó í Bolungarvík frá 1956, var síðan fimm ár í Reykjavík við nám og tónlistarstörf á veturna en málaði fyrir vestan á sumrin. Hann var stofnandi og skólastjóri Tónlistarskóla Bolungarvíkur 1964-87, bæjarstjóri í Bolungarvík 1987-2002, auk þess sem hann var þar hafnarstjóri til 2002 og framkvæmdastjóri heilsugæslu- og sjúkrahúss Bolungarvíkur 1987-2002 og framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Bolungarvíkur 2002-2005.

Ólafur sat í hreppsnefnd Hólshrepps 1966-74, í bæjarstjórn Bolungarvíkur 1974-2002, var forseti hennar 1974-87, sat í bæjarráði, hafnarstjórn og fjölmörgum nefndum á vegum bæjarfélagsins, í stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða 1974-84 og formaður þess 1982-84, í Orkunefnd Vestfjarða 1977-87 og formaður hennar í átta ár, í stjórn Heilbrigðisráðs Vestfjarða 1981-89, var annar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1987-91, sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1990-98, í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 1990-98, í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 1990-98 og í stjórn Brunabótafélags Íslands 1995-2015.

Ólafur lék á yngri árum á harmóniku á sveitaböllum við Ísafjarðardjúp og á píanó og víbrafón í Hljómsveit Villa Valla, lék með Hljómsveit Erics Hubner á Keflavíkurflugvelli og ýmsum tónlistarmönnum í Reykjavík, og lék m.a. undir hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Hann stjórnað ýmsum kórum, lúðrasveitum Tónlistarskólans á Ísafirði og í Bolungarvík

Ólafur lék inn á geisladisk árið 1999 sem bar heitið Gamlar minningar, með dóttur sinni, Eddu Borg, tengdasyninum Bjarna Sveinsbjörnssyni á bassa og Pétri Grétarssyni á trommur.

Hvernig fór það saman að vera málarameistari, frumkvöðull í tónlistarlífi og síðan bæjarstjóri?

„Alveg einstaklega vel. Um skeið var ég eini málarameistarinn í Bolungarvík og málaði því flest hús þar og báta. Ég var svolítið litaglaður og gaf því bænum lit.

Um tónlistina er það að segja að hún sameinar fólk, flytjendur og hlustendur, en það er einmitt afar mikilvægur eiginleiki í pólitík. Fleiri stjórnmálamenn mættu því leggja fyrir sig málaraiðn og tónlist.“ ...

Íslendingar. Morgunblaðið. 7. desember 2015, bls. 22-23.

Staðir

Iðnskólinn á Ísafirði Nemandi -1956
Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -1963
Tónlistarskóli Bolungarvíkur Skólastjóri 1964-1987
Bolungarvík Bæjarstjóri 1987-2002

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Villa Valla Píanóleikari og Víbrafónleikari

Viðtöl


Bæjarstjóri, harmonikuleikari, nemandi, píanóleikari, skólastjóri, stjórnandi, tónlistarnemandi, tónmenntakennari og víbrafónleikari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 7.12.2015