Matthildur Kvaran Matthíasson (Matthildur Einarsdóttir Kvaran, Matthildur Hjörleifsson, Matthildur Arnalds) 29.09.1889-27.01.1980

Meðal þeirra kvenna sem komu fram sem píanóleikarar og meðleikarar með söngvurum var Matthildur Einarsdóttir Hjörleifssonar rithöfundar Kvarans og konu hans, Gíslínu Gísladóttur. Var hún á þessum árum nefnd frk. Matthildur Hjörleifsson. Hún var fædd 1889 og giftist 1908 Ara Jónssyni sem þá var ritstjóri og málflutningsmaður í Reykjavík en tók síðar upp ættarnafnið Arnalds, var lengst sýslumaður og bæjarfógeti á Seyðisfirði og varð á efri árum kunnur rithöfundur. Hún hefur ekki verið nema 15 ára þegar hún kom fram á tónleikum í Bárunni ásamt Kristrúnu Hallgrímsson, Sigfúsi Einarssyni, Brynjólfi Þorlákssyni o.fl. í desember 1904.

Íslenzkar konur í tónlist. Jón Þórarinsson. Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 4.

... Enn er ótalinn einn þáttur í fari Matthildar, sem ekki hafði þó hvað minnsta þýðingu fyrir hana, en það var tónlistarhneigð hennar. Hún hafði alla tíð mikið yndi af tónlist, og sjálf lék hún mjög vel á píanó og stundaði í mörg ár kennslu í þeirri grein. Hafði hún fyrst numið píanóleik hér í Reykjavík, en sigldi síðar til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms, sem hún stundaði um liðlega eins árs skeið. Eftir að hún kom heim, lék hún oft undir á tónleikum einsöngvara hér í bæ...

Úr minningargrein. Guðrún Arnalds. Morgunblaðið 6. febrúar 1980, bls. 23.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanókennari, píanóleikari og tónlistarmaður

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014