Gunnar Kvaran 16.01.1944-

<p>Gunnar hóf tónlistarnám í Barnamúsík-skólanum þar sem kennari hans var Dr. Heinz Edelstein. Síðar stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni og við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem kennari hans var prófessor Erling Blöndal-Bengtsson. Hann stundaði framhaldsnám hjá prófessor Reine Flachot í Basel.</p> <p>Gunnar kennir við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann stundar auk fastra starfa umfangsmikið tónleikahald bæði heima og erlendis. Hann hefur haldið einleiks og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, auk Bandaríkjanna og Kanada og m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York og í Beethoven Haus í Bonn. Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og hljómdiskar hafa verið gefnir út með leik hans.</p> <p> Gunnar hlaut verðlaun úr sjóði Dr. Gunnars Thoroddsen árið 1990 fyrir tónlistarstörf og var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996. Mörg undanfarin sumur hefur hann ásamt konu sinni, Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara, verið gestur á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum. Sumrin 1999 og 2000 var honum einnig boðið að kenna og leika á tónlistarhátíð í Grikklandi. Í desember 2001 var honum boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikum í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pablo Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans. Gunnar er ásamt Peter Máté og Guðnýju Guðmundsdóttur meðlimur í Tríói Reykjavíkur.</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi 1956-
Tónmenntaskóli Reykjavíkur Tónlistarnemandi -1956
Konunglegi tónlistarháskólinn í Kaupmannahöfn Háskólanemi 1964-
Listaháskóli Íslands Sellókennari -
Tónskóli Sigursveins Sellókennari -
Tónlistarskólinn í Reykjavík Sellókennari -

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Lúdó Kontrabassaleikari 1957 1959

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Háskólanemi , sellókennari , sellóleikari og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.01.2019