Sigurður Guðmundsson (Siggi á Háeyri) 17.05.1931-

<p>... Siggi á Háeyri var 14 ára þegar Oddgeir Kristjánsson fékk hann í Lúðrasveit Vestmannaeyja. „Ég hef lifað og hrærst í þessu síðan,“ segir trommarinn. „Það hefur ekkert annað komist að.“ Hann rifjar upp að fyrstu trommurnar hafi hann smíðað úr naglakútum og strekkt kindagæru á endana. Síðan hafi hann eignast trommusett auk þess sem trommusett hafi verið í Samkomuhúsi Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja hafi átt annað. „Trommurnar voru alltaf fyrir hendi og Oddgeir kenndi okkur að lesa nóturnar. Hann var mjög góður kennari, spilaði á öll hljóðfæri og var eins og pabbi okk- ar enda vorum við heimagangar hjá þeim hjónum.“</p> <p>Mikil dansmenning var í Vestmannaeyjum og margar hljómsveitir. Siggi á Háeyri var í nokkrum þekktum hljómsveitum og lék með þeim víða um land. Þar á meðal var sextett Haraldar Guðmundssonar, hljómsveit Guðjóns Pálssonar og hljómsveit Árna Elvar auk þess sem hann spilaði með bandarískri hljómsveit í klúbbunum á Keflavíkurflugvelli í eitt ár, en Siggi starfaði annars sem trésmiður og fiskmatsmaður og náði sér í próf sem trommuleikari hjá FÍH. „Ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig og fékk mér því rétt- indin,“ segir kappinn, sem sendi frá sér bókina Undir hraun 2013.</p> <p>Djasselítan í Reykjavík var fastagestur á vertíðarböllum í Eyjum og spilaði Siggi á Háeyri með henni enda nóg að gera við að skemmta heimamönnum og öðrum. „Upp undir tvö þúsund manns, sjómenn og fiskvinnslufólk, bættust við íbúafjöldann á vertíðunum og þá var alltaf fjör í báðum samkomuhúsunum. Ég spilaði einu sinni á 35 böllum í Alþýðuhúsinu, sem hét þá Kaffi Stjarnan, á hverju kvöldi frá miðjum apríl til 20. maí. Það var alltaf troðið. Það þarf að endurvekja þessa stemningu eins og hún var, til dæmis á Hótel Sögu. Nú veit enginn við hvern hann er að dansa og vangadans þekkist ekki.“</p> <p>Siggi á Háeyri flutti upp á land 1999 og var strax fenginn til að spila með tónlistarmönnum í Harmonikufélagi Reykjavíkur. Síðan hefur hann spilað með Léttsveit félagsins og í tilefni af 30 ára afmæli þess verða afmælistónleikar í Ráðhúsinu laugardaginn 28. maí.</p> <p>Auk þess að leika með Léttsveitinni er Siggi á Háeyri í ýmsum böndum, meðal annars í Grundarbandinu og Lóu og lundunum. „Við spilum víða reglulega og gamla fólkið kann vel að meta tónlistina, sumir dansa og aðrir dilla sér með,“ segir Siggi sem missti einu sinni taktinn. „Ég var með gáttaflökt, hjartað sló óreglulega en ekki taktfast. Það gengur ekki fyrir trommara að missa taktinn og sem betur fer kipptu læknarnir á Landspítalanum þessu fljótlega í lag.“</p> <p align="right">Sjá nánar: Sinfóníuhljómsveit Íslands – saga og stéttartal, bls. 194-195. Sögusteinn 2000.</p>

Skjöl


Fiskmatsmaður , trommuleikari og trésmiður
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 17.05.2016