Vladimir Ashkenazy 06.07.1937-

Vladimir Ashkenazy er hvað frægastur þeirra sem telja má til tengdabarna þjóðarinnar. Kona hans Þórunn Jóhannsdóttir fluttist reyndar með fjölskyldu sinni til London sex ára gömul þar sem hún sjálf var undrabarn á píanó og þurfti að komast í almennilegan skóla. Hún hélt tungumálinu og rótunum við og leit á sig sem Íslending, enda var hún með íslenskan ríkisborgararétt fyrir utan þau fáu ár sem hún var sovéskur þegn. Áhrif Ashkenazys eru víðtæk. Hugmyndin að Listahátíð í Reykjavík er frá honum komin og fjöldi frábærra tónlistarmanna sem hingað kom, sérstaklega á fyrstu árum hátíðarinnar, var beinlínis á hans vegum eða kom hingað vegna þess að fólk þekkti til hans sem píanósnillings. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1972 og bjó hér í áratug, á árunum 1968-1978 þar sem þau hjónin höfðu fengið nóg af erlinum sem fylgdi því að búa í London. Héðan fluttu þau síðan til Luzern í Sviss og sameinuðu með því friðsældina frá Íslandi og það að búa í hjarta Evrópu. Ashkenazy hefur einnig lengi verið mjög öflugur hvatamaður að byggingu tónlistarhúss í Reykjavík og ósmeykur við að láta í ljós vanþóknun sína á seinaganginum við að koma þeirri framkvæmd af stað...

Úr Morgunbalaðsgrein Ingibjargar Eyþórsdóttur: Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld Grein III: Breytt heimsmynd í kjölfar velmegunar.


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 16.07.2015