Sæbjörn Jónsson 19.10.1938-07.08.2006

<p>Sæbjörn Jónsson fæddist á Vegamótum á Snæfellsnesi þann 19. október 1938. Foreldrar hans voru Jón Aðalsteinn Sigurgeirsson og Steinunn Ólína Þórðardóttir. Systkini Sæbjörns eru: Hrefna Jónsdóttir, Sunneva Þrándardóttir hálfsystir og Hansína Bjarnadóttir fóstursystir. Eiginkona Sæbjörns er Valgerður Valtýsdóttir, f. á Níp á Skarðsströnd 26. október 1940. Börn þeirra eru: 1) Jón Aðalsteinn, f. 9. ágúst 1957, giftur Jóhönnu Guðrúnu Jónasdóttur. 2) Valbjörn, f. 25. júlí 1959, í sambúð með Ernu Dahl. 3) Alma, f. 17. febrúar 1962. 4) Smári Valtýr, f. 11. maí 1967, í sambúð með Selmu Hrönn Maríudóttur. Sæbjörn og Valgerður eiga 20 barnabörn og 4 barnabarnabörn.</p> <p>Sæbjörn ólst upp í Stykkishólmi frá 3ja ára aldri og hóf þar nám í trompetleik 12 ára gamall hjá Víkingi Jóhannssyni. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1959 og bjó þar til dauðadags. Hann starfaði sem rafvirki og rafvélavirki á yngri árum og rak fyrirtækið Rafbraut sf. um árabil. Sæbjörn hóf nám í rafvirkjun árið 1955, hjá Haraldi Gíslasyni rafvirkjameistara, og lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1959.</p> <p>Árin 1960 til 1964 stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara. Hann stundaði einnig nám í trompetleik hjá Harry Kvebæk í Noregi. Lengst af, eða í 37 ár, hafði hann atvinnu sem hljómlistamaður og þá ýmist sem trompetleikari, kennari eða hljómsveitarstjóri. Sæbjörn kenndi og stjórnaði hljómsveitum við Tónmenntaskóla Reykjavíkur í yfir 20 ár. Hann stofnaði einnig Lúðrasveit Fíladelfíusafnaðarins og kenndi þar um nokkurra ára skeið. Sæbjörn var fastráðinn trompetleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1969-1998 og spilaði einnig í Íslensku óperunni og í Þjóðleikhúsinu. Hann var stjórnandi Lúðrasveitarinnar Svansins frá 1973-1982. Hann stofnaði Stórsveit Reykjavíkur 17. febrúar 1992 og var stjórnandi hennar til ársins 2002, en þá lét hann af störfum vegna veikinda. Eftir það sinnti hann nótnasafni Stórsveitarinnar.</p> <p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 17. ágúst 2006, bls. 34.</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi 1960-1964

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Lúðrasveitin Svanur Stjórnandi 1974 1982
Sinfóníuhljómsveit Íslands Trompetleikari 1969 1998
Stórsveit Reykjavíkur Stjórnandi 1992-02 2002

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 29.01.2016