Hermann Jónsson 13.11.1938-01.01.2019

<p>Hermann var mjög mússíkalskur. Þegar hann var unglingur keyptu eldri bræður hans harmoníum og gáfu Molastaðaheimilinu. Hermann var undrafljótur að ná tökum á hljóðfærinu og spila ýmis lög margradda. Aðspurður hvernig hann vissi hvaða nótur ætti að spila á svaraði hann að hann vissi bara hvað hljómaði. Hann var iðinn við að kenna yngri systkinum og sumarbörnum á hljóðfærið og niðurstaðan var sú að harmoníumið hljómaði stöðugt ef einhver var inni við og oft tóku viðstaddir undir með söng. Þegar Hermann fór að vinna launavinnu keypti hann sér harmonikku. Hann varð snillingur á það hljóðfæri og síðar einnig á hljómborð. Hermann lék við ýmis tækifæri, ýmist einn eða með öðrum. Í félagsheimili Fljótamanna, Ketilási, var vart samkoma án þess að Hermann spilaði og hann lék á landsmótum hestamanna og handverksmörkuðum svo eitthvað sé nefnt.</p> <p>Hermann var organisti í Barðskirkju árin 1972-1974 og hann stjórnað Samkór Fljótamanna og kór Fljótakvenna á meðan þessir kórar störfuðu. Upptökur af söng þessara kóra eru til á geisladisk. Hann söng með kirkjukór Barðskirkju. Í tilefni af sextugsafmæli Hermanns árið 1998 var gefinn út geisladiskurinn Kvöldkyrrð með leik hans á rafmagnsharmonikku með hljómbanka.</p> <p>Hermann studdist ekki við nótur við hljóðfæraleik nema þegar hann var organist. Hermann fékkst eitthvað við lagasmíðar.</p> <p>Hermann spilaði fyrst með hljómsveitinni Júnó í Eyjafirði í kringum 1960 og sem gestaspilari með hljómsveitinni Miðaldarmenn á Hótel KEA á Akureyri í þrjú sumur 1983-1986.</p> <p>Hermann og frændi hans Steinar Ingi Eiríksson stofnuðu hljómsveit sem þeir nefndu Hermann og Ingi. Þeir spiluðu um árabil (1986-2001) á dansleikjum, aðalega í Skagafirði og á Siglufirði.</p> <p>Hermann var félagi í Harmonikkusveit Siglufjarðar.</p> <p align="right">Bjarnheður K. Guðmundsdóttir - janúar 2019</p>

Staðir

Barðskirkja Organisti 1972-1974

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 25.01.2019