Eiður Ágúst Gunnarsson 22.02.1936-15.06.2013

Eiður hóf ungur söngnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Þorsteini Hannessyni og síðar hjá Vincenzo Maria Demetz. Árið 1966 fór Eiður til náms hjá Konservatorium der Stadt Köln, Óperudeild, í Þýskalandi, þar sem aðalkennari hans var Robert Blasius. Einnig sótti Eiður söngtíma hjá hinum heimsfræga tenórsöngvara Helge Rosvaenge, sem starfaði og bjó í München.

Eftir námið í Köln starfaði Eiður frá 1970 til 1973 við óperuna í Düsseldorf, síðan lá leiðin í óperuna í Linz í Austurríki. Hann var svo ráðinn til Óperuhússins í Aachen þar sem hann starfaði frá 1974 til 1987. Þá flutti Eiður ásamt fjölskyldu sinni heim til Íslands og starfaði þar síðan meðan heilsan leyfði.

Eiður söng nokkur hlutverk við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna, einnig á meðan hann starfaði erlendis, en helgaði sig að mestu söngkennslu bæði við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Eiður kom einnig fram á einkatónleikum og söng fjölda sönglaga í Ríkisútvarpinu.

Árin 1983 og 1984 söng hann fyrir Ríkisútvarpið lagaflokkana „Svanasöngur“ (Schwanengesang) eftir Franz Schubert og „Ástir skálds“ (Dichterliebe) eftir Robert Schumann á íslensku í þýðingu Daníels Á. Daníelssonar við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Upptökur þessar komu út á geisladiskum árið 2010.

Úr minningargrein í Morgunblaðinu 24. júní 2013.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 25.06.2013