Eiður Ágúst Gunnarsson 22.02.1936-15.06.2013

<p>Eiður hóf ungur söngnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Þorsteini Hannessyni og síðar hjá Vincenzo Maria Demetz. Árið 1966 fór Eiður til náms hjá Konservatorium der Stadt Köln, Óperudeild, í Þýskalandi, þar sem aðalkennari hans var Robert Blasius. Einnig sótti Eiður söngtíma hjá hinum heimsfræga tenórsöngvara Helge Rosvaenge, sem starfaði og bjó í München.</p> <p>Eftir námið í Köln starfaði Eiður frá 1970 til 1973 við óperuna í Düsseldorf, síðan lá leiðin í óperuna í Linz í Austurríki. Hann var svo ráðinn til Óperuhússins í Aachen þar sem hann starfaði frá 1974 til 1987. Þá flutti Eiður ásamt fjölskyldu sinni heim til Íslands og starfaði þar síðan meðan heilsan leyfði.</p> <p>Eiður söng nokkur hlutverk við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna, einnig á meðan hann starfaði erlendis, en helgaði sig að mestu söngkennslu bæði við Söngskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Eiður kom einnig fram á einkatónleikum og söng fjölda sönglaga í Ríkisútvarpinu.</p> <p>Árin 1983 og 1984 söng hann fyrir Ríkisútvarpið lagaflokkana „Svanasöngur“ (Schwanengesang) eftir Franz Schubert og „Ástir skálds“ (Dichterliebe) eftir Robert Schumann á íslensku í þýðingu Daníels Á. Daníelssonar við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Upptökur þessar komu út á geisladiskum árið 2010.</p> <p align="right"><a href="http://www.ismus.is/i/document/id-209103">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 24. júní 2013.</a></p>

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 25.06.2013