Carl Billich 23.07.1911-23.10.1989

... Með [Carli Billich] er horfinn einn af þeim merku brautryðjendum, sem hafa sett svip á íslenskt tónlistarlíf á þessari öld. Hann átti langan og viðburðaríkan starfsferil að baki.

Carl var Vínarbúi og þar var hann fæddur og alinn upp. Í þeirri víðfrægu tónmenntaborg hlaut hann góðan undirbúning undir lífsstarf sitt.

Til Íslands kom Carl árið 1933, ásamt fleiri austurrískum og þýskum hljóðfæraleikurum og byrjaði að iðka tónlist sína á Hótel Íslandi, sem stóð á Hallærisplaninu svo nefnda. Segja má að Carl og félagar hans hafi flutt með sér andblæ evrópskrar hámenningar og tónlistarhefðar. Þessir ágætu listamenn voru aldir upp og höfðu hlotið sinn skóla þar sem vagga tónlistarinnar hefur staðið um alda raðir.

Skömmu eftir að Carl kom til Íslands kvæntist hann konu sinni Þuríði, sem reyndist honum tryggur og góður förunautur allt til hinstu stundar. Það kom ekki hvað síst í ljós hin síðari ár, þegar hann var þrotinn að kröftum eftir langan og oft strangan vinnudag.

Árið 1940 var Carl handtekinn, eins og fleiri útlendingar hér á landi, og fluttur í enskar fangabúðir. Þar dvaldist hann til stríðsloka, en var sendur til Þýskalands eftir fangavistina, ásamt mörgum öðrum sem líkt var ástatt með. Þar var hann án vegabréfs og vegalaus í öllum hörmungum og þrengingum eftirstríðsáranna. Það mun fyrst og fremst Þuríði konu hans að þakka að Carli tókst að komast aftur til íslands árið 1947 og hér öðlaðíst hann ríkisborgararétt og nýtt föðurland. Þuríður leitaði að manni sínum innan um þá mörgu týndu og vegalausu og tókst að koma honum heim til Íslands. Ást Þuríðar og umhyggja til manns síns var einlæg og entist út yfir gröf og dauða. Um dvöl sína í fangabúðunum vildi Carl aldrei ræða.

Eftir að Carl kom aftur til landsins varð hann brátt mjög virkur í Íslensku tónlistarlífi. Hann lék undir og útsetti lög fyrir ýmsa kvartetta, m.a. Leikbræður, Smárakvartettinn og M.A. kvartettinn. Einnig var hann undirleikari hjá Karlakórnum Fóstbræðrum í fjölda ára og fór söngferðir með kórnum til margra landa. Í Naustinu starfaði hann í 16 ár og ennfremur í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Þá stundaði hann kennslu í píanóleik.

Snemma var farið að leita til Carls til að leika undir og útsetja tónlist fyrir leiksýningar hér í borginni. Brátt kom í ljós að Carl Billich var sá maður, sem við leikarar og leikstjórar gátum ekki án verið.

Hann var ráðinn kór- og hljómsveitarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu 1964 og gegndi þeirri stöðu til ársins 1981, er hann lét af störfum sökum aldurs.

Sá sem þetta ritar átti því láni að fagna, að starfa með Carli við nær 20 leiksýningar hjá Þjóðleikhúsinu. Einnig unnum við saman við útgáfu á nokkrum hljómplötum. í meira en tuttugu ár var okkur Carli falið að annast skemmtiatriði á 17. júní hátíðum fyrir Reykjavíkurborg. Þá eru ótaldar þær ferðir, sem við fórum ásamt félógum okkar til nærligejandi staða í sama tilgangi ...

Klemenz Jónsson. Úr minningargrein í Tímanum 31. október 1989, bls. 10.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Björns R. Einarssonar Píanóleikari 1946-11 1957-04/05

Tengt efni á öðrum vefjum

Hljómsveitarstjóri, kórstjóri, píanókennari, píanóleikari og útsetjari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.07.2015