Sólveig Eyjólfsdóttir 25.02.1908-31.01.2005

<p>Sólveig fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar 1909. Að loknu barnaskólanámi var hún í vist í Gróðrarstöðinni í Reykjavík og stundaði eftir það verslunar- og bókhaldsstörf. Eftir að Sólveg varð ekkja tók hún að sér veitingar í Sjálfstæðishúsinu í Hafnarfirði á árunum 1953-1967, sá um veislur og mat fyrir Rotary-klúbbinn og Lionsklúbbinn. Síðar vann hún skrifstofustörf hjá Brunabótafélagi Íslands og sá um mötuneyti kennara í Lækjarskóla allt til 1986 er hún lét af störfum.</p> <p>Sólveig starfaði mikið að félagsmálum og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Hafnarfjarðarbæ. Hún sat lengi í barnaverndarnefnd, byggðasafnsnefnd og í gatnanafnanefnd sat hún til 90 ára aldurs. Sólveig var einn af stofnendum Slysavarnadeildarinnar Hraunprýði og sat í stjórn félagsins í yfir 60 ár, þar af sem formaður í níu ár. Sólveig var heiðursfélagi í Hraunprýði, var sæmd gullmerki Slysavarnafélags Íslands og er heiðursfélagi þess. Þá átti hún sæti í Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju í 20 ár. Sólveig var einn af stofnendum Vorboðans, félags sjálfstæðiskvenna í Hafnarfirði, var í mörg ár í stjórn félagsins og átti sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. Var hún kjörin heiðursfélagi þar. Sólveig var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu hinn 1. janúar 1994 fyrir störf að félagsmálum.</p> <p align="right">Úr minningargrein í Morgunblaðinu 8. febrúar 2005, bls. 26.</p> <p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 26.05.2015