Erling Blöndal Bengtsson 08.03.1932-06.06.2013

„... Erling Blöndal Bengtsson fæddist í Kaupmannahöfn, sonur hjónanna Sigríðar Nielsen frá Ísafirði og danska fiðluleikarans Valdemars Bengtssons. Lesa má í dönskum blöðum frá fjórða áratug tuttugustu aldar að drengurinn vakti snemma athygli vegna afburðahæfileika í tónlist. Faðir hans gaf honum litla fiðlu er hann var þriggja ára, en sagði síðar að hann hefði alltaf leikið á fiðluna sem hún væri selló. Í framhaldi af því útbjó faðir hans víólu sem selló. Rúmlega fjögurra ára gamall kom Erling Blöndal fyrst fram opinberlega í Kaupmannahöfn, á jólatónleikum blaðsins Politiken, og má lesa í því blaði 25. nóvember árið 1936: "Erling, sem er á fimmta ári, er blátt áfram undrabarn." Hann kom fyrst opinberlega fram með hljómsveit í Tívolí 10 ára gamall. Gamall læknir sem staddur var á tónleikunum hreifst svo af leik hans að hann færði honum selló.

Alla tíð, frá þessari fyrstu stundu, hefur Erling Blöndal Bengtsson heillað áheyrendur með leik sínum, nú í heila listamannsævi, sem enn er sem blómstrandi vorgróður ...“

Úr „Sannur Musicus ...“. Bjarki Sveinbjörnsson. Lesbók Morgunblaðsins. 11. mars 2006.

Tónlistarsafn Íslands í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni varðveitir margvísleg gögn tengd Erlingi og ferli hans. Nefna má veggspjöld, tónleikaskrár, sendibréf, ljósmyndir og um 200 smástyttur af sellóleikurun sem Erling safnaði um tíma. Sellóið sem smiðað var sérstaklega fyrir Erling fjögurra ára er og varðveitt í Tónlistarsafni.

Jón Hrólfur - 15. febrúar 2019

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Sellóleikari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.02.2019