Brynjúlfur Sigfússon 01.03.1885-27.02.1951

Brynjúlfur fæddist 1. marz 1885 og var elzti sonur hjónanna á Vestri·Löndum Vestmannaeyjum frú Jónínu Brynjúlfsdóttur prests Jónssonar að Ofanleiti og Sigfúsar Arnarsonar, organista frá Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum. Tónlistarhæfileikar Brynjúlfs komu snemma í ljós. Lærði hann organleik hjá föður sínum, en dvaldist síðar við nám Í Danmörku.

Arið 1904 stofnaði Brynjúlfur fyrstu lúðrasveitina Í Vestmannaeyjum ásamt 5 öðrum ungum mönnum. Sú lúðrasveit starfaði í 12 ár og stjórnaði Brynjúlfur henni allan þann tíma. - Árið 1904 var Brynjúlfur ráðinn organisti við Landakirkju eftir föður sinn. Því starfi hélt hann i 36 ár og rækti það starf sitt af einstakri alúð.

Nokkru eftir að Brynjúlfur gerðist organisti við Landakirkju stofnaði hann söngflokk. Fyrstu árin bar hann ekkert nafn, en hlaut síðar nafnið Vestmannakór og var landskunnur undir því nafni. Kórinn hélt söngskemmtanir á ýmsum stöðum á Suðurlandi og þar á meðal Í Reykjavík árið 1944.

Brynjúlfur starfaði við verzlun P. Bryde á unglingsárum sínum, en árið 1914 stofnaði hann eigin verzlun, sem hann rak síðan til dauðadags. Árið 1933 kvæntist Brynjúlfur Ingrid Maríu Einarsson ættaðri frá Seyðisfirði eystra. Lifir hún mann sinn. Þau hjón eignuðust 4 börn, sem öll eru á lífi. Brynjúlfur lézt í Vestmannaeyjum 27. febr. 1951.

Jafnframt organista- og söngstjórastarfinu iðkaði hann tónsmíðar. Kunnasta lag hans er „Sumarmorgunn á Heimaey“, sem hann samdi við ljóð Sigurbjarnar Sveinssonar, „Yndislega eyjan mín“. Geta mætti hér nokkurra fleiri laga eftir Brynjúlf svo sem: „Vér þekkjum háa hamraborg“ við ljóð Steins Sigurðssonar, og „Út á Íslands mið“, ljóðið eftir Jóhannes úr Kötlum. „Ólag yfir Landeyjasand“. ljóðið orti Grímur Thomsen. „Yndi er að horfa á himinljós“, ljóðið eftir Gísla Brynjólfsson, „Hin dimma, grimma hamrahöll“, Ljóðið orti Gísli Brynjólfsson.

Mesta yndi Brynjúlfs, þegar hann gaf sér tóm og tíma, var að dveljast með bjargveiðimönnum Eyjanna í Úteyjum og stjórna þar söng og annarri glaðværð. Þar \'var hann hrókur alls fagnaðar. Þar lifði hann og undi margar yndisstundir í hópi góðra félaga. Ef til vill fékk hann á stundum innblástur þarna í Úteyjunum í kyrrð og næði, þegar fuglar og menn höfðu tekið á sig náðir, lundarnir í holum sínum og félagarnir í rekkjum veiðimannakofans.

Sú, sem þetta skrifar, var um árabil söngfélagi í Vestmannakór og naut þar góðrar tilsagnar hins mikilhæfa söngstjóra.

I. Þ. Organistablaðið, 2. tbl. 3. árg. 1970.

Staðir

Landakirkja Organisti 1904-1940

Tengt efni á öðrum vefjum

Kaupmaður, organisti og tónlistarmaður

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014