Jón Friðfinnsson 16.08.1865-16.12.1936

Jón Friðfinnsson var fæddur á Þorvaldsstöðum í Breiðdal, Suðurmúlasýslu, 16. ágúst 1865. Voru foreldrar hans hjónin þar, Friðfinnur Jónsson og Halldóra Pálsdóttir. Jón fluttist með foreldrum sínum til Nýja-Íslands sumarið 1876, og ílentist þar með þeim um nokkur ár, en flutti síðar til Winnipeg. Tvítugur nam hann land í Argylebygðinni og kvæntist þar tveim árum síðar (1887) Önnu Jónsdóttur [Þorsteinssonar frá Þverá í Eyjafirði - f. 14. júní 1867, d. 27. ágúst 1940]. Eignuðust þau 11 börn, náðu 8 fullorðins aldri, og hafa sum þeirra fengið söngmentun. Búskapurinn batt honum þrönga skó, eins og fleirum, en sönghneigðin varð þeim þó yfirsterkari. Hann byrjaði lítið eitt á fiðluspili, en brátt fékk hann sér orgel og lærði að leika á það mest af sjálfsdáðum. Áður langt um leið varð hann organleikari í kirkjum bygðanna. Eftir það fór hann að semja sönglög við ýms kvæði og sendi vini sínum Gunnsteini þau til yfirlits. Þá hafði Gunnsteinn öðlast nokkra þekkingu í raddskipun og hvatti Jón til náms. Fekk hann í fyrstu tilsögn bréflega hjá fyrv.kennurum Gunnsteins. Mun Gunnsteinn hafa litið yfir og endurbætt raddsetningu á "Tólf Sönglög", eftir Jón, sem út komu í Reykjavík 1904. Eftir 20 ára búskap flytur Jón (1905) til Winnipeg með alt sitt sifjalið. Fer hann þá fyrir alvöru að gefa sig við tónfræði námi hjá ágætum kennara í borginni. Á næstu 15 árum orkti hann mörg af sínum ágætustu lögum, sem prentuð voru ýmist eftir handriti í blöðunum eða í lausu formi. Seinna safnaði hann þeim flestum eða öllum í heild og gaf út með nafninu "Ljósálfar" 1921. Er það hin glæsilegasta söngbók og hin ágætasta að innri og ytri frágangi. Þar er að finna mörg af hans markverðustu lögum, svo sem "Vor" við kvæði Jóhanns Sigurjónssonar, "Ljósálfar" við kvæði Gutt. J. Guttormssonar, "Sumar" og "Vormenn" við kvæði eftir Guðmund Guðmundsson, "Vögguljóð" við kvæði Jóh. Magnúsar Bjarnasonar, svo aðeins fá séu nefnd af þeim 24 lögum, sem í bókinni eru. Telja má víst, að Jón hafi ritað eitthvað talsvert á næstu árum, þó ég kunni nú ekki að nefna það. Enda er svo sagt, að eftir hann liggi milli 50 og 100 lög, sem reyndar sýnist helst til óákveðin tala, þar sem aðeins tæp 40 hafa verið gefin út. Á síðari árum mun hann hafa gjört nokkrar tilraunir við orkestralög. Man eg eftir a.m.k. einum strengleik fyrir fjögur hljóðfæri, sem lét mjög vel í eyrum. Yfirleitt má segja um lög Jóns, að þau lýsi hreysti og sjálfstrausti allflest, sum þó gleði og fagnaðarkend, en færri draumblíðu, viðkvæmni eða trega.

Þegar líða tók að árinu 1930 lét hátíðanefndin á Íslandi boð út ganga um kantötusamkeppni við þúsund ára minningarljóð Davíðs Stefánssonar, er hlotið hafði fyrstu kvæðaverðlaun. Þó Jón væri þá hálfsjötugur og ekki sem hraustastur, gekk hann til verks og skrifaði kantötuna á tiltölulega stuttum tíma, og er það mikið verk. Ekki fékk hann samt neina viðurkenningu eða verðlaun, sem varla var við að búast, þar sem annar Vestur-Íslendingur, honum lærðari og snjallari, komst ekki heldur nálægt verðlaununum. En viðurkenningin kom, þó síðar væri og á nokkuð annan hátt. Síðasta árið, sem hann lifði, þegar ljóst var, að hann ætti ekki langt í land, sameinuðu sig tvö íslensk söngfélög hér í bæ, Karlakór Íslendinga og The Ieelandie Choral Society, og æfðu hátíðakantötu Jóns, og var hún sungin í Fyrstu Lúthersku kirkjunni hér í borginni fyrir húsfylli. Var það Íslendingum hér til ævarandi sóma og hinu aldna tónskáldi til ósegjanlegrar gleði. Var heilsan þá svo að þrotum komin, að styðja þurfti hann til sætis. Þetta var um vorið 6. maí 1936, og endurtekið tveim vikum síðar. Leið nú óðum að endadægri, því 16. desember 1936 var hann örendur.

Bæði blöðin hér skrifuðu af samúð og skilningi um samsönginn og luku lofsorði á kantötuna og hin önnur tónverk höfundarins, sem þar voru flutt. Skrifaði E. P. Jónsson í blað sitt, "Lögberg", en Ragnar H. Ragnar, hinn alkunni kennari og tónfræðingur, í Heimskringlu. Er því miður ekki rúm til að endurtaka neitt af því hér.

Nokkur Vestur-Íslensk tónskáld. Gísli Jónsson. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga. 1. janúar 1950, bls. 73.


Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 23.10.2018