Eggert Gilfer (Eggert Guðmundsson) 12.02.1892-24.03.1960

Eggert fæddist í Ytri-Njarðvík. Foreldrar hans voru Guðmundur Jakobsson trésmíðameistari, sonur Jakobs Guðmundssonar, prests og alþingismanns á Sauðafelli, og k.h. Þuríðar Þórarinsdóttur, dóttur Þórarins Árnasonar, garðyrkjumanns í Reykjavík.

Bróðir Eggerts var Þórarinn Guðmundsson, tónskáld og fiðluleikari. Þeir voru á sama tíma í námi við tónlistarskólann í Kaupmannahöfn, Eggert hafði orgel sem aðalfag, en píanó sem aukafag. Hann lauk framhaldsprófi í orgelleik árið 1913 og var fyrsti íslenski orgelleikarinn, sem lokið hafði slíku prófi við erlendan tónlistarskóla. Hann starfaði síðan alla tíð sem tónlistarmaður, fyrst sem kirkjuorgelleikari en var síðan í hljómsveit Ríkisútvarpsins [23 ár hjá Útvarpinu]. Hann kenndi einnig mörgum orgelleik og lék með bróður sínum á tónleikum og undir þöglu myndunum í Nýja bíói. Eggert samdi einnig nokkur tónverk.

Þekktastur var Eggert fyrir skákhæfileika sína. Þegar hann var í tónlistarnáminu í Kaupmannahöfn vann hann í fjöltefli sjálfan Capablanca sem síðar varð heimsmeistari. Eggert var einn besti skákmaður Íslands á fyrri hluta 20. aldarinar og varð sjö sinnum Íslandsmeistari, en aðeins Hannes Hlífar Stefánsson hefur oftar orðið Íslandsmeistari. Síðasta Íslandsmeistaratitil sinn vann hann árið 1952, sextugur að aldri. Hann tefldi á fimm ólympíuskákmótum þ. á m., þrisvar sinnum á fyrsta borði, síðast árið 1952. Hann varð fyrstur Íslendinga til að keppa á skákþingi Norðlendinga, árið 1928.

Eggert tefldi allt þar til yfir lauk. Ári áður en hann lést tefldi hann sem gestur á Skákþingi Norðlendinga og vann það með yfirburðum og aðeins tveim dögum fyrir andlát sitt mætti hann á taflkvöld hjá einu taflfélaginu og vann alla níu andstæðinga sína.

Eggert tók upp ættarnafnið Gilfer árið 1924, hann var ókvæntur og barnlaus.

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 12. febrúar 2016, bls. 27

Staðir

Konunglegi tónlistarháskólinn í Kaupmannahöfn Tónlistarnemandi 1908-1913

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Útvarpshljómsveitin Harmonikuleikari

Tengt efni á öðrum vefjum

Lagahöfundur, organisti, orgelkennari, píanóleikari og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.03.2017