Eyþór Þorláksson 22.03.1930-14.12.2018

<p>Eyþór byrjaði ungur að leika á hljóðfæri og lék frá 1946 til 1992 með ýmsum íslenskum og erlendum danshljómsveitum. Hann stundaði nám í gítarleik í Englandi, Danmörku og Svíþjóð 1950-1952 og árið 1953 í Madríd hjá Daniel Fortea og Quintin Esquembre. Hljómfræði og kontrapunkt lærði hann hjá Dr. Urbancic 1954-1957 og dvaldi í Barcelona 1958-1961 þar sem hann stundaði framhaldsnám í gítarleik hjá Garciano Tarragó.</p> <p>Í <a href="http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1980676">Morgunblaðsviðtali</a> 8. október 2000 segir Eyþór:</p> <blockquote>... Ég er fæddur í Hafnarfirði árið 1930. Foreldrar mínir voru María Jakobsdóttir, ættuð frá Aðalvík, og Þorlákur Guðlaugsson úr Biskupstungunum. Þau hófu búskap í Hafnarfirði árið 1927. Ég er fæddur í húsi við Krosseyrarveginn og var í Hafnarfirði öll mín bernsku- og unglingsár og hef reyndar búið hér í Hafnarfirði þegar ég hef ekki dvalið á Spáni. Við fluttumst að Hlébergi í Setbergslandi og þar bjuggum við í nokkur ár. Þegar ég var fimmtán ára fluttum við í nýtt hús við Öldugötuna sem pabbi byggði. Pabbi var með búskap á Hlébergi og fór síðar að vinna hjá Reykdal í frystihúsinu og um tíma vann hann í timburverksmiðju og hann vann einnig við bílamálningar. Hann var sjómaður á bátum sem voru gerðir út frá Hafnarfirði fyrstu árin hans hér í Firðinum ...</blockquote> <p>Eyþór hefur útsett mikið fyrir gítar og skrifað kennsluefni enda mikilvirkur kennari um árabil. Hann var lengi aðal gítarkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar en kenndi annars víða eins og hann greinir frá í ofannefndu viðtali:</p> <blockquote>... Kennslan byrjaði smátt og smátt og fyrst í Barnamúsíkskólanum [síðar Tónmenntaskóli Reykjavíkur]. Svo jókst kennslan eftir því sem tólistarskólunum fjölgaði. Ég var á tímabili að kenna í mörgum skólum, ég kenndi hjá Tónlistarskóla Sigursveins, í Kópavogi, í Hafnarfirði og Garðabæ. Þá var ég með minn eigin skóla í nokkur ár. Ég var einnig með gítarkennslu í Ríkissjónvarpinu hér fyrr á árum. Þetta voru fimmtán þættir fyrir byrjendur og það nýttu margir sér þessa kennslu. Þetta var auðvitað ákveðið brautryðjandastarf, gítarkennsla hafði ekki áður verið í sjónvarpi á Íslandi ...</blockquote> <p>Eftir fyrstu námsdvöl sína á Spáni kom Eyþór til Íslands og átti upp frá því farsælan feril sem kennari og gítarleikari með fjölda hljómsveita á Íslandi og Spáni:</p> <blockquote>... Ég kom heim frá Spáni haustið 1959 en byrjaði með Svavari Gests í ársbyrjun 1960. Það var skemmtflegur tími og við fórum víða um landið og komum fram á tónleikum og skemmtunum og vikulega í útvarpsþættinum „Nefndu lagið“ sem var með vinsælli útvarpsþáttum á þeim árum.<br /> <br /> Á þessum tíma kynntist ég Sigurbjörgu Sveinsdóttur konunni minni og hún fór með mér út til Spánar haustið 1960. Þá byrjaði ég að spila aftur með sömu músíköntum og ég hafði verið með áður. Ég hélt áfram að læra klassískan gítarleik og þá byrjaði Sigurbjörg að syngja með hljómsveitinni. Við vorum þarna meira eða minna á Spáni til 1966 og komum fram í klúbbum í Barcelona, Costa Brava og Mallorca. Við Sigurbjörg komum alltaf heim á haustin, við vorum t.d. með hljómsveit í Leikhúskjallaranum, Sigtúni og á Röðli yfir vetrarmánuðina en spiluðum á Spáni á sumrin. Árið 1968 vorum við Didda með hljómsveit Guðjóns Pálssonar í Leikhúskjallaranum í stuttan tíma. Didda varð flugfreyja hjá Loftleiðum 1968, síðar Flugleiðum og ákvað að hætta að syngja. Didda starfaði sem flugfreyja meðan henni entist aldur en hún fórst í hörmulegu flugslysi í Sri Lanka í nóvember 1978 ...</blockquote>

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Eyþórs Combo Gítarleikari 1961-09 1967-12
GO kvintett Gítarleikari og Kontrabassaleikari 1946 1947
Hawaii-kvartettinn Gítarleikari 1947
Hljómsveit Björns R. Einarssonar Gítarleikari 1949-01-07 1949-06
Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar Gítarleikari 1948-11-01 1967-04-30
Hljómsveit Hauks Morthens Gítarleikari 1970 1970
Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar Gítarleikari 1949
Hljómsveit Svavars Gests Gítarleikari 1960-01 1960-09/11
KK-sextett Gítarleikari 1952 1956
Orion-kvintett Gítarleikari 1956-04-17 1957-11/12
Tríó Eyþórs Þorlákssonar Gítarleikari 1953-07-08 1962-04-18

Viðtöl

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarkennari , gítarleikari , tónskáld og útsetjari

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 15.12.2018