Kormákur Bragason 24.11.1955-

<p>Ég er fæddur á Akureyri skömmu eftir miðja síðustu öld og eyddi fyrstu æviárunum í Þorpinu utan Glerár. Á þriðja aldursári flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og ég man fátt úr Skaftahlíðinni annað en hundinn Kol en við vorum um það bil í andlitshæð hvor við annan á þeim árum. Þá lá leiðin í Kópavog þar sem fótbolti átti hug minn allan meðan ég fylgdist með Ríó Tríóinu verða til í gegnum Óla bróður. Þegar Óli var í Tónlistarskólanum var hann eitthvað að föndra við flautuleik en missti áhugann svo að ég sá tækifæri á að komast yfir flautuna. Ég lærði fyrst á þverflautu í Tónlistarskóla Kópavogs hjá Halldóri Pálssyni og Bernard Wilkinson 1970-76 en eftir menntaskólann fór ég til leiklistarnáms í Svíþjóð og síðar til Noregs.</p> <p>Á háskólaárunum í Noregi spilaði ég með skólafélögunum og eyddum við talsverðum tíma sem götumússikantar í Ósló og víðar til að drýgja tekjurnar. 1980 stofnaði ég í Svíþjóð ásamt dönskum leiklistarpedagog Jesper Mikkelsen o.fl. leiklistarhópinn Fredskaravanen, sem ferðaðist með götu- og tónlistarleikhús á Norðurlöndum í tvö sumur. 1984-1990 starfaði ég m.a. sem tónlistarkennari í Ólafsfirði og lék þá með danshljómsveitinni Box um tíma. Þá tók ég þátt í að skipuleggja Blue North tónlistarhátíðarnar í Ólafsfirði ásmt fleiri tónlistarviðburðum með Þúsund Þjölum ehf.</p> <p>Ég hef í gegnum árin talsvert fengist við kvikmyndagerð bæði á Íslandi og í Svíþjóð enda menntaður í leikhúsfræðum við Óslóarháskóla (1980-83) og kvikmyndafræði í Stokkhólmsháskóla (1990-96). Samhliða kvikmyndafræðinámi stundaði ég nám í kvikmyndagerð í Stockholms filmskola (1990-92) og á einnig að baki nám í mannfræði við HÍ. Frá 1996 hefur ég einkum starfað sem kennari, reyndar oft fyrir þann tíma líka. Eftir að við komum South River Band á laggirnar fór ég aftur að huga að textagerð og týndi fram ýmsan skúffumat sem ég sýndi strákunum og fór jafnvel að semja lag og lag, sem þeim þótti nothæft. Gítarspilið lærði ég fyrst hjá vini mínum í Noregi, sem var mest til gamans gert þannig að nú má ég hafa mig allan við ef ég á að halda í við strákana.</p> <p align="right">Af vefsíðu Kormáks (18. júlí 2015)</p>

Staðir

Tónlistarskóli Kópavogs Tónlistarnemandi 1970-1976

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Gæðablóð 2007
South River Band Söngvari og Gítarleikari 2000-08

Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari , lagahöfundur , skáld , söngvari , textahöfundur og tónlistarnemandi
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.10.2015