Ögmundur Pálsson -13.06.1541

Stundaði nám í Englandi og á Niðurlöndum. Varð kirkjuprestur í Skálholti um 1499, eða litlu fyrr, jafnframt var hann formaður á skútu Skálholtsstaðar og var það enn 1508. Prestur á Breiðabóltsað í Fljótshlíð 1504, varð ábóti í Viðey 1515 og prófastur í Kjalarnesþingi. Kjörinn biskup í Skálholti 1519. Lét af biskupsembætti 1540 vegna sjónleysis. Lenti í deilum við eftirmann sinn, Gizur Einarsson sem hann hafði þó komið í biskupsembættið en Gizuri fannst hann ekki njóta sín og lét handtaka Ögmund og flytja til Danmerkur og andaðist hann á leiðinni. Ögmundur var stórbrotinn maður og mjög einráður. Gegndi um tíma hirðstjóraembætti á landinu.

Heimild: Íslenskar æviskrár PEÓ V bindi, bls. 361-2.

Ögmundur Pálsson var síðasti biskup kaþólskra í Skálholti. Foreldrar hans voru Páll Guðmundsson og Margrét Ögmundardóttir sem bjuggu „fyrir vestan“, eins og segir í heimildum.

Ögmundur stundaði nám á Englandi og Niðurlöndum. Hann var prestur í Skálholti 1499-1503 og á Breiðabólsstað í Fljótshlíð 1503-1515. Hann varð prófastur í Rangárþingi 1504 og hélt þeim embættum til 1515 er hann varð ábóti í Viðey. Hann var jafnframt skipherra á Þorlákssúðinni, skipi Skálholtsstaðar. Þau fjögur ár sem hann gegndi ábótastarfinu auðgaði hann klaustrið að jörðum; hann keypti jarðir, fékk klaustrinu dæmdar jarð- eignir og gerði einnig próventusamninga sem færðu því jarðir og aðrar eignir.

Hann var einnig prófastur í Kjalarnesþingi um og eftir 1518.

Ögmundur var kjörinn biskup í Skálholti 1519, fór utan 1520 og var vígður biskup í Niðarósi 1521 og kom aftur til Íslands 1522. Hann var hirðstjóri yfir Skálholtsbiskupsdæmi og rak bú að Krossi um skeið. Hann lét af biskupsembætti 1540 vegna sjónleysis og fluttist þá að Haukadal í Biskupstungum. Urðu brátt væringar með honum og eftirmanni hans, Gissuri Einarssyni, sem hann hafði þó komið í embætti.

Sumarið 1541 var Christoffer Huitfeldt, flotaforingi í danska flotanum, sendur til Íslands af Kristjáni III. til að taka höndum Ögmund, sem konungur áleit ábyrgan fyrir morðinu á fógetanum Diðriki frá Minden tveimur árum áður. Hinn 2. júní komu Danir að Hjalla í Ölfusi, þar sem Ögmundur var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni, handtóku hann og fluttu í skipið. Skipið lét úr höfn 5. júní en Ögmundur andaðist á leiðinni, líklega 13. júlí.

„Ögmundi er þannig lýst að hann væri mikill vexti, hár og þrekinn, gulur á hár, kringluleitur í andliti, fagureygur og smáeygur. Fyrirmannlegur og höfðinglegur og bauð af sér góðan þokka, skörungur mikill og framkvæmdasamur, ráðríkur og ágjarn, afarmenni að burðum og harðfengur, stórorður, reiðigjarn og siðvandur.“

Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 13. júlí 2015, bls. 23

Staðir

Skálholtsdómkirkja Prestur 1499-1504
Breiðabólstaðarkirkja Rangárvöllum Prestur 1504-1515
Viðeyjarkirkja Ábóti 1515-1519
Skálholtsdómkirkja Biskup 1519-1540

Biskup, prestur, prófastur, skipstjóri og ábóti
Ekki skráð
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.07.2015