María Baldursdóttir 28.02.1947-

„... María var í Barnaskóla Keflavíkur, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur og stundaði síðan nám við Iðnskólann í Keflavík 1963-66, lærði hárgreiðslu hjá Ingibjörgu Sigurðardóttur 1963-66, lauk sveinsprófi í þeirri grein og öðlaðist síðan meistararéttindi í hárgreiðslu.

María byrjaði ung að vinna fyrir sér: „Þá þótti sjálfsagt að við krakkarnir færum að létta undir með þeim fullorðnu og sinna þeim störfum sem við gátum unnið skammlaust. Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að vinna í frystihúsinu. Síðar stundaði ég verslunarstörf hjá Kaupfélagi Suðurnesja, sinnti skrifstofustörfum hjá Bifreiðaeftirlitinu og var flugfreyja hjá Loftleiðum í þrjú ár. Auk þess starfaði ég sem hárgreiðslumeistari um langt árabil.“

En hvenær hófst söngferilinn? „Ég held ég hafi verið 12 ára þeg- ar ég kom fyrst fram opinberlega. Ég söng með ýmsum danshljómsveitum, s.s. Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar gítarleikara en auk þess með Ragnari Bjarnasyni á Hótel Sögu, eina vertíð, með Þóri Baldurssyni, bróður mínum, en lengst með manni mínum, Rúnari Júlíussyni, í Geimsteini, og þá voru synirnir stundum með. Auk þess söng ég oft bakraddir með hinum ýmsu tónlistarmönnum.“

María sendi árið 1975 frá sér sólóplötuna Vökudraumar. Hún var kjörin Ungfrú Ísland í fegurðarsamkeppninni árið 1969 og tók í kjölfarið þátt í fegurðarsamkeppnunum Miss Universe og Miss Scandinavia í Finnlandi.

María og Rúnar komu sér upp húsi á sínum tíma að Skólavegi 12 í Keflavík þar sem var allt í senn, heimili fjölskyldunnar, hljómplötuútgáfa og „upptökuheimili“ hjá Rúnari, sem rak þar fyrirtækið Geimstein auk þess sem María var þar með hárgreiðslustofu um skeið.

María veiktist alvarlega fyrir tæpum fimm árum en hefur verið í endurhæfingu og er vongóð um framhaldið: „Maður verður bara að taka því sem höndum ber og halda svo áfram. Annað er ekki í boði...“

Úr Fjölskylda og fræðndgarður. Morgunblaðið. 28. febrúar 2017, bls. 26-27

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Hárgreiðslumeistari og söngkona
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 28.02.2017