Róbert Abraham Ottósson (Róbert A. Ottósson) 17.05.1912-10.03.1974

<blockquote>... Róbert fæddist í Berlín 17. maí 1912. Þar ólst hann upp á miklu menningarheimili þar sem fjölskyldan lifði öll og hrærðist í tónlist. <br><br> Móðir hans, Lise Golm, var listmálari en faðir hans, Ottó Abraham, var læknir. Auk læknisstarfanna var hann einnig mikilvirkur fræðimaður á sviði tónlistarsálfræði og er verka hans enn getið í helstu uppsláttarritum um tónlist. Róbert lagði stund á píanónám frá barnsaldri og tók einnig að semja tónverk ungur að árum. Fyrsta ópusnúmerið leit dagsins ljós árið 1919 (þegar Róbert var sjö ára) og fyrstu sinfóníuna samdi hann fimm árum síðar. Hann lauk stúdentsprófi frá Falke-Realgymnasium í heimaborg sinni 1931 og stundaði að því loknu nám við heimspekideild Friedrich Wilhelm-háskólans auk þess sem hann hélt áfram tónlistarnámi við Tónlistarháskólann í Berlín. <br><br> Á æskuárum sínum í Berlín var Róbert í nánum tengslum við framámenn í þýsku tónlistarlífi. Hann var t.d. vel kunnugur Wilhelm Furtwängler sem um þær mundir var aðalhljómsveitarstjóri Berlínarfílharmóníunnar. Þá var hljómsveitarstjórinn Bruno Walter góður vinur Róberts allt þar til Walter féll frá árið 1962. Eftir andlát Walters var Róbert gefinn einn af tónsprotum meistarans sem hann varðveitti síðan eins og helgan dóm. <br><br> Róbert var kominn af gyðingum í báðar ættir en fjölskyldur foreldra hans höfðu fyrir löngu tekið kristna trú. Hann hlaut kristilegt uppeldi og eftir því sem hann sjálfur sagði frá var það „yfirleitt ekkert frábrugðið því, sem algengt var um aðra þýzka unglinga, enda hugsaði ég ekki oftar né öðruvísi um það á æskuárunum að ég væri Gyðingur, en reykvískur drengur að hann sé fæddur af norðlenzku foreldri“. Hvað sem þessu leið var honum ekki lengur vært í Berlín eftir valdatöku nasista. <br><br> Árið 1934 hélt Róbert því til Parísar og hélt áfram námi þar með aðaláherslu á tónsmíðar og hljómsveitarstjórn. Þar tók hann m.a. þátt í „Session d’Études“ (meistarabekk fyrir nemendur í hljómsveitarstjórn) hjá hinum þekkta stjórnanda Hermann Scherchen. <br><br> Veturinn 1934-35 dvaldist Róbert í Kaupmannahöfn þar sem komið hafði til tals að hann fengi stöðu hljómsveitarstjóra við danska útvarpið. <br><br> Svo fór þó ekki þar sem tónlistin í dagskrá útvarpsins var um þær mundir skorin niður og starfinu breytt. Hann fékk þó ýmis verkefni sem hljómsveitarstjóri og stjórnaði m.a. tónleikaröð í Carlsberg-Glyptótekinu sem bar yfirskriftina „Fra barok til klassik“. Í Kaupmannahöfn komst Róbert í kynni við dr. Lis Jacobsen norrænufræðing sem vakti áhuga hans á íslensku þjóðinni og menningu hennar. Sveinn Björnsson var þá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og sagði hann síðar frá því að í sendiráðið hefði komið ungur maður að leita sér upplýsinga um land og þjóð. Lét maðurinn í ljós þá ósk sína að halda til Íslands til að starfa að tónlistarmálum...</blockquote> <p align="right">Úr grein Árna Heimis Ingólfssonar: Á flótta undan hakakrossinum - 3. hluti: Róbert A. Ottósson.</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarkennari 1945-1956
Tónlistarkennari 1952-1956
Tónmenntaskóli Reykjavíkur Skólastjóri 1952-1956

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Söngsveitin Fílharmónía Stjórnandi 1960 1974
Útvarpskórinn Kórstjóri

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 12.10.2020