Hendrik Rasmus (Henni Rasmus) 06.05.1911-04.08.1991
<p>Nokkur af lögum Henna Rasmus urðu all vinsæl, m.a. átti hann fjögur af tíu efstu lögunum í fyrstu danslagakeppninni sem fram fór á Íslandi árið 1938. Þetta voru lögin Viltu með mér vaka í nótt, sem hefur verið leikið og sungið samfellt til þessa dags, Það var um haustkvöld, Anna-Maja og Manstu. Flestum lagasmíðum sínum fleygði hann í pappírskörfuna en sumum tókst að bjarga þaðan. Nokkur af lögum hans voru gefin út á nótnaheftum fyrir 1940 og hafa varðveist í vörslu Hrefnu Þórarinsdóttur, eiginkonu Henna sem lést 2012.</p>
<p>Henni Rasmus hét upphaflega Sigurður Gunnar Sigurðsson en var skírður upp á nýtt Heinrich Konrad Rasmus eftir að hann missti móður sína mjög ungur og var ættleiddur af systur hennar sem var gift þýskum manni. Við fermingu var nafni hans breytt í Hendrik en flestir þekktu hann sem Henna. Hann stundaði píanónám á unglingsárunum hjá frú Önnu Pjeturs og lék fyrst opinberlega 13 ára gamall.</p>
<p>A námsárum sínum á Íslandi stundaði Henni öll almenn verkamannastörf en árið 1931 var hann sendur til Þýzkalands til náms í rafmagnsfræðum. Þar dvaldist hann í fjögur ár og þar kynntist hann jazzinum, sem tók hug hans allan svo að hann hætti námi og fór að spila með jazzböndum í Berlín.</p>
<p>Eftir heimkomuna frá Þýskalandi hóf hann þegar að spila, bæði jazz – og danstónlist en starfaði jafnframt fyrst hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og síðan á rafmagnsverkstæði Eiríks Ormssonar. Þá starfaði hann um skeið fyrir Jón Ófeigsson sem fengið hafði styrk til að gefa út þýsk-íslenska orðabók. Þegar árið 1935 stofnaði hann ásamt nokkrum vinum sínum jazzbandið „The Blue Boys“ sem lék m.a. í Iðnó, Ingólfscafé, KR húsinu og á Röðli við Laugaveg, en á sumrin spilaði hann á Hótel Akureyri og á Hótel Hvanneyri á Siglufirði. Árin1941- 42 starfaði hann í Hafnarfirði, þar sem hann stofnaði kabarett ásamt öðrum tónlistarmönnum.</p>
<p>Á síðari stríðsárunum var Henni í siglingum og fór þá margar ferðir með skipum Eimskipafélagsins í skipalestum til Bandaríkjanna þegar kafbátahernaður Þjóðverja stóð sem hæst í Norður-Atlantshafi. Eftir stríðið lék hann á Hótel Borg með hljómsveit Þóris Jónssonar og annaðist undirleik við ballettskóla Sigríðar Ármann til margra ára. Jafnframt stundaði hann húsamálun á árunum 1946-52 en gerðist þá skrifstofumaður á Keflavíkurflugvelli og gegndi því starfi þar til hann hætti vegna heilsubrests.</p>
<p align="right">Af vef Salarins 3. september 2013 þar sem auglýstir voru tónleikar með tónlist Henna Rasmus 28. september 2013.</p>
<p>Eftir Henna liggja 11 lög í handriti sem nú hafa verið nótusett og gerð aðgengileg hér neðar. Hvenær lögin voru samin er ekki vitað.</p>
Skjöl
01) Haustkvöld - Henni Rasmus/Valborg Bentsdóttir | Skjal/pdf | |
02) Ebba Henni - Rasmus/Valborg Bentsdóttir | Skjal/pdf | |
03) Vals Henni - Rasmus/Loftur Guðmundsson | Skjal/pdf | |
04) Anna Maja Henni - Rasmus/Tómas Guðmundsson | Skjal/pdf | |
05) Viltu með mér vaka - Henni Rasmus/Valborg Bentsdóttir | Skjal/pdf | |
06) Við léttan dans - Henni Rasmus/Tómas Guðmundsson | Skjal/pdf | |
07) Að elska! Að kissa! - Henni Rasmus/Tómas Guðmundsson | Skjal/pdf | |
08) Breiðablik - Henni Rasmus/Tómas Rasmus | Skjal/pdf | |
09) Á ári friðar - Henni Rasmus/Valborg Bentsdóttir | Skjal/pdf | |
10) Hjartahlý vegna þín - Henni Rasmus/Valborg Bentsdóttir | Skjal/pdf | |
11) Manstu - Henni Rasmus/Tómas Guðmundsson | Skjal/pdf | |
Danssýning Sigríðar Ármann (sýningarskrá) | Skjal/pdf | |
![]() |
Hendrik Rasmus | Mynd/jpg |
![]() |
Hendrik Rasmus | Mynd/jpg |
![]() |
Hljómsveitin the Blue Boys | Mynd/jpg |
![]() |
Musik - Cabarettinn | Mynd/jpg |
„Running Wild“ - Kvartett Guðmundar Nordal (1947) | Hljóðskrá/mp3 |
Tengt efni á öðrum vefjum
Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.12.2015