Hendrik Rasmus (Henni Rasmus) 06.05.1911-04.08.1991

Nokkur af lögum Henna Rasmus urðu all vinsæl, m.a. átti hann fjögur af tíu efstu lögunum í fyrstu danslagakeppninni sem fram fór á Íslandi árið 1938. Þetta voru lögin Viltu með mér vaka í nótt, sem hefur verið leikið og sungið samfellt til þessa dags, Það var um haustkvöld, Anna-Maja og Manstu. Flestum lagasmíðum sínum fleygði hann í pappírskörfuna en sumum tókst að bjarga þaðan. Nokkur af lögum hans voru gefin út á nótnaheftum fyrir 1940 og hafa varðveist í vörslu Hrefnu Þórarinsdóttur, eiginkonu Henna sem lést 2012.

Henni Rasmus hét upphaflega Sigurður Gunnar Sigurðsson en var skírður upp á nýtt Heinrich Konrad Rasmus eftir að hann missti móður sína mjög ungur og var ættleiddur af systur hennar sem var gift þýskum manni. Við fermingu var nafni hans breytt í Hendrik en flestir þekktu hann sem Henna. Hann stundaði píanónám á unglingsárunum hjá frú Önnu Pjeturs og lék fyrst opinberlega 13 ára gamall.

A námsárum sínum á Íslandi stundaði Henni öll almenn verkamannastörf en árið 1931 var hann sendur til Þýzkalands til náms í rafmagnsfræðum. Þar dvaldist hann í fjögur ár og þar kynntist hann jazzinum, sem tók hug hans allan svo að hann hætti námi og fór að spila með jazzböndum í Berlín.

Eftir heimkomuna frá Þýskalandi hóf hann þegar að spila, bæði jazz – og danstónlist en starfaði jafnframt fyrst hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og síðan á rafmagnsverkstæði Eiríks Ormssonar. Þá starfaði hann um skeið fyrir Jón Ófeigsson sem fengið hafði styrk til að gefa út þýsk-íslenska orðabók. Þegar árið 1935 stofnaði hann ásamt nokkrum vinum sínum jazzbandið „The Blue Boys“ sem lék m.a. í Iðnó, Ingólfscafé, KR húsinu og á Röðli við Laugaveg, en á sumrin spilaði hann á Hótel Akureyri og á Hótel Hvanneyri á Siglufirði. Árin1941- 42 starfaði hann í Hafnarfirði, þar sem hann stofnaði kabarett ásamt öðrum tónlistarmönnum.

Á síðari stríðsárunum var Henni í siglingum og fór þá margar ferðir með skipum Eimskipafélagsins í skipalestum til Bandaríkjanna þegar kafbátahernaður Þjóðverja stóð sem hæst í Norður-Atlantshafi. Eftir stríðið lék hann á Hótel Borg með hljómsveit Þóris Jónssonar og annaðist undirleik við ballettskóla Sigríðar Ármann til margra ára. Jafnframt stundaði hann húsamálun á árunum 1946-52 en gerðist þá skrifstofumaður á Keflavíkurflugvelli og gegndi því starfi þar til hann hætti vegna heilsubrests.

Af vef Salarins 3. september 2013 þar sem auglýstir voru tónleikar með tónlist Henna Rasmus 28. september 2013.

Eftir Henna liggja 11 lög í handriti sem nú hafa verið nótusett og gerð aðgengileg hér neðar. Hvenær lögin voru samin er ekki vitað.

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanóleikari, tónlistarmaður og tónskáld

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 1.12.2015