Lárus Halldór Grímsson 13.12.1954-

Lárus byrjaði tónlistarnám 10 ára í „Lúðrasveit drengja“ (Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar). Síðar stundaði hann nám í flautuleik og var í blásarakennaradeild Tónlistarskóla Reykjavíkur á árunum 1972-1977. Hann fór til Hollands og nam raftónlist og tónsmíðar við Institute voor Sonologie í Utrecht. Lárus samdi á námsárum sínum í Hollandi fjölda raftónverka, einnig nokkur kammer- og sólóverk fyrir þarlenda hljóðfæraleikara. Mörg þessara verka voru pöntuð af Fonds voor de Scheppende Toonkunst og Amsterdamse Fonds voor de Kunst. Verk hans fyrir sembal, F-horn og segulband vann til verðlauna í Gaudeamus tónskáldakeppni árið 1982 og kom það nýlega út á geisladiski sem tileinkaður er sembaltónlist í Hollandi.

Tónverk Lárusar hafa meðal annars verið flutt á Norrænum músíkdögum, Electro acoustic festival Burges í Frakklandi, ARS electronica í Austurríki svo eitthvað sé nefnt. Saxófónkvartett hans hefur verið á efnisskrá margra erlendra saxófónkvartetta, einnig umskrift á sama verki fyrir klarínettur hjá klarínettukvartettum. Lárus hefur hlotið starfslaun listamanna nokkrum sinnum og styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, m.a. til að semja barnaóperuna Skuggaleikhús Ófelíu, verk fyrir Caputhópinn, Lúðrasveit Reykjavíkur og marga aðra íslenska flytjendur. Um árabil var Lárus afkastamikill í leikhústónlist og hefur hann samið tónlist við u.þ.b. 30 leiksýningar, fjölda útvarpsleikrita og sjónvarpsþátta, einnig tónlist við ballett og kvikmyndir. Fyrir Lúðrasveit Reykjavíkur hefur Lárus samið fimm stór blásarasveitarverk, sem flutt hafa verið á Listahátíð í Reykjavík, við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna, á Myrkum músíkdögum Tónskáldafélags Íslands og víðar. Til skólanotkunar samdi Lárus 4 blásaraverk fyrir skólalúðrasveitir og útsetti þjóðlög til notkunar í tónmenntakennslu og samleiks fyrir smáa sem stóra samspilshópa.

Auk kennslu á blásturshljóðfæri hefur Lárus verið skólastjóri og stjórnandi Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar síðan 1994. Samhliða því hefur hann stjórnað Lúðrasveit Reykjavíkur frá 1993. Í 6 ár var Lárus formaður Sambands Íslenskra lúðrasveita SÍL.

Vefur Skólahljómsveita Reykjavíkur (desember 2013).

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi 1972-1977

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Deildarbungubræður Hljómborðsleikari
Eik Flautuleikari og Hljómborðsleikari 1972 1978
Eik Flautuleikari og Hljómborðsleikari 2000 2000
Lúðrasveit Reykjavíkur Stjórnandi 1993
Súld Flautuleikari og Hljómborðsleikari
Þokkabót Söngvari, Flautuleikari og Hljómborðsleikari 1978 1979
Þokkabót Söngvari, Flautuleikari og Hljómborðsleikari 2000

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Flautuleikari, hljómborðsleikari, skólastjóri, tónlistarnemandi og tónskáld
Ekki skráð

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 26.05.2016