Oddur Andrésson 24.11.1912-21.06.1982

<p>Oddur Andrésson fæddist á Bæ í Kjós hinn 24.11. 1912. Foreldrar hans voru Andrés Ólafsson, bóndi á Bæ, organisti og kórstjóri í kirkjunum á Saurbæ á Kjalarnesi og á Reynivöllum, og Ólöf Gestsdóttir frá Kiðafelli, húsfreyja á Bæ. Oddur kvæntist 1947 Elínu Jónsdóttur frá Gemlufalli í Dýrafirði, f. 29.6. 1921, d. 26.12. 2010, húsfreyju. Þau voru bændur á Neðra-Hálsi í Kjós frá 1947 þar til Kristján sonur þeirra tók við búinu 1980. Oddur og Elín eignuðust sex börn. Oddur var formaður ungmennafélagsins Drengs og vann við undirbúning að byggingu Félagsgarðs sem ungmennafélagið lét reisa 1945-46. Hann var forystumaður á sviði tónlistar, skólamála og skógræktar í sinni sveit, var formaður skólanefndar barnaskólans í Ásgarði um árabil, formaður Bræðrafélags Kjósarhrepps er sá um rekstur bókasafnsins í sveitinni og ýmsa menningarviðburði, formaður kjördæmaráðs sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi og vþm. nokkur þing og fékk þá bætt í skógræktarlög viðbót um skjólbeltarækt en hann var sjálfur frumkvöðull á því sviði.</p> <p>Oddur lærði orgelleik hjá séra Halldóri Jónssyni og Páli Ísólfssyni. Hann varð organisti í Reynivallakirkju 19 ára gamall, eftir að faðir hans lést, og þar lék hann síðast við fermingu vorið 1982.</p> <p>Oddur stýrði kvartett bræðra sinna upp úr 1930 sem varð vísir að Karlakór Kjósverja, undir hans stjórn. Hann var einn stofnenda Söngfélagsins Stefnis með nærsveitungum sínum í Mosfellssveit, var stjórnandi þess og sameinaði Karlakór Kjósverja og Karlakórinn Stefni í Karlakór Kjósarsýslu, 1960. Oddur var einn af stofnendum og formaður Skógræktarfélags Kjósarsýslu, varaformaður Skógræktarfélags Íslands í áratug, sat í stjórn Landgræðslusjóðs, í stjórn Mjólkursamsölunnar um 10 ára skeið og í stjórn Osta- og smjörsölunnar.</p> <p>Heimild: Morgunblaðið 24.11.2012</p>

Staðir

Reynivallakirkja Organisti 1931-1982
-

Tengt efni á öðrum vefjum