Gerrit Schuil 27.03.1950-18.09.2019

Gerrit fæddist í Vlaardingen í Hollandi 27. mars 1950 og vakti barnungur þjóðarathygli fyrir tónlistargáfu sína. Að loknu námi við Tónlistarháskólann í Rotterdam hélt hann til framhaldsnáms í London hjá John Lill og Gerald Moore, og síðar í París hjá Vlado Perlemuter. Einnig nam hann í nokkur ár hljómsveitarstjórn hjá rússneska meistaranum Kirill Kondrashin. Árið 1979 réðst Gerrit til Sinfóníuhljómsveitar hollenska ríkisútvarpsins sem þá var aðalhljómsveit hollensku ríkisóperunnar í Amsterdam og starfaði þar sem stjórnandi um árabil. Einnig stjórnaði hann hljómsveitum víða í Evrópu og Bandaríkjunum, bæði í óperuhúsi og tónleikasal, og hélt tónleika víða í Evrópu, Asíu og í Bandaríkjunum.

Gerrit fluttist til Íslands árið 1993 með þáverandi eiginmanni sínum, Jóni Þorsteinssyni óperusöngvara, lærði íslensku á skömmum tíma og gerðist brátt áhrifamaður í listalífi þjóðarinnar. Hann skipulagði og efndi til fjölda tónleika og merkra tónlistarhátíða, m.a. í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík, að ógleymdum rómuðum tónlistarhátíðum í Garðabæ, þeirri fyrstu á 200 ára afmæli Schuberts 1997. Þá bauð hann heimsfrægum erlendum listamönnum til samstarfs hér á landi, m.a. löndum sínum Robert Holl og Elly Ameling, og vann alla tíð ötullega með íslensku tónlistarfólki, söngvurum og hljóðfæraleikurum. Um skamma hríð leiddi hann listrænt starf Íslensku óperunnar og stjórnaði nokkrum sinnum Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig liggja eftir hann nokkrir hljómdiskar þar sem hann leikur með ýmsum fremstu tónlistarmönnum Íslendinga. Árið 2010 hlaut Gerrit Schuil Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir list sína.

Byggt á andlátsfregn í Morgunblaðinu 21. september 2019, bls. 8


Tengt efni á öðrum vefjum

Hljómsveitarstjóri, píanóleikari, tónlistarkennari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 24.09.2019