Ásta Einarsson (Ásta Sigríður Sveinbjörnsson Einarsson) 05.12.1877-27.03.1959

Ásta Sigríður Einarson, fædd Sveinbjörnsson, var í heiminn borin í Reykjavík 5. desember 1877, dóttir hjónanna Lárusar Sveinbjörnssonar dómstjóra Landsyfirréttarins og Jörgínu Guðmundsdóttur Thorgrímsen frá Eyrarbakka. Ásta var fædd og uppalin í Túngötu 6 og bjó þar raunar mestallan sinn búskap. Eiginmaður hennar, Magnús Einarson dýralæknir, lést 1927, aðeins 57 ára að aldri. Börn þeirra voru dr. Lárus Einarson læknir og prófessor í líffærafræði við Árósarháskóla í Danmörku, Guðrún Einarson húsmóðir í Reykjavík, Helga Velschow-Rasmussen píanóleikari og húsmóðir í Kaupmannahöfn og Birgir Einarson apótekari í Vesturbæjar Apóteki.

Ásta lærði ung að leika á píanó, fyrst í Reykjavík hjá Ástríði Melsted, eiginkonu Sigurðar Melsted forstöðumanns Prestaskólans, og fósturdóttur þeirra Önnu Pétursson. Þær mæðgur voru helstu kennarar í píanóleik hér á landi um sína daga og Ástríður var fyrsti píanókennari Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds, föðurbróður Ástu. Hjá þessum frænda sínum dvaldi Ásta veturinn 1899-1900 í Edinborg og naut tilsagnar hans í píanóleik. Þarna kynnti hún Sveinbirni nýlega ljóðabók Hannesar Hafstein sem hún hafði þegið úr hendi skáldsins nokkru fyrr er hún var krýnd skautadrottning á Tjörninni í Reykjavík. Upp frá því fór Sveinbjörn að semja lög við ljóð Hannesar sem mörg hver hafa orðið þjóðþekkt. Ásta heimsótti einnig oft móðurfólk sitt í Húsinu á Eyrarbakka þar sem tónlistin var í hávegum höfð en þar var eitt fyrsta píanóið sem komið hafði til landsins á 19. öld. Eftir því sem best er vitað kom Ásta fyrst fram í Dómkirkjunni í Reykjavík hinn 22. ágúst 1895, þá tæplega 18 ára gömul, á tónleikum með þýskri söngkonu, Auguste Heusler. Í febrúar 1899 léku þau Ásta og baróninn á Hvítárvöllum, Charles Gauldrée Boilleau, saman á kvöldskemmtun Stúdentafélagsins í Iðnaðarmannahúsinu, hún á píanó en hann á selló. Þá tók hún þátt í flutningi kantötu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við konungskomuna 1907 svo að eitthvað sé nefnt. Ásta átti svo eftir að koma mjög við sögu tónleikahalds í Reykjavík næstu þrjá áratugi sem einn af helstu píanóleikurum landsins, ýmist sem einleikari eða meðleikari söngvara og kóra. Þá lék Ásta gjarnan undir í árdögum kvikmynda í Reykjavík og var á orði haft hversu vel henni tókst að láta hljómana falla að þeirri þöglu mynd sem verið var að sýna. Hún kenndi einnig píanóleik frá aldamótum og fram undir miðja síðustu öld. Loks stýrði hún um skeið söng í Kvennaskólanum í Reykjavík og var orgelleikari Oddfellowstúkunnar Rebekku nr. 1 í áratugi.

Ásta sótti reglulega messur og aðrar hátíðir í Dómkirkjunni og lýsti séra Jón Auðuns því við útför hennar að í kirkjunni hefði hún átt sinn venjulega stað og jafnan setið þar fyrirmannleg og tigin. Ásta Einarson lést í Reykjavík liðlega áttræð 27. mars 1959.

Úr tónleikaskrá minningartónleika um frú Ástu Einarsson píanóleikara
- haldnir í Dómkirkjunni í Reykjavík 3. desember 2011.

Árið 1895 er þess getið að þýsk frú, Auguste Heusler, hafi sungið á kirkjutónleikum í Dómkirkjunni með aðstoð frk. Ástu Sveinbjörnsson og Brynjólfs Þorlákssonar. Ásta, sem þarna er fyrst getið, átti eftir að koma mjög við sögu tónleikahalds í Reykjavík næstu þrjá áratugi, m.a. var hún um árabil einn helsti undirieikari söngvara. Hún var dóttir Lárusar Sveinbjörnssonar háyfirdómara, bróður Sveinbjarnar tónskálds, og konu hans Jörgínu Guðmundsdóttur, kaupmanns á Eyrarbakka, Thorgrímsens. Hún var fædd í Reykjavík 1877. Veturinn 1899-1900 var hún hjá Sveinbirni frænda sínum í Edinborg, og naut tilsagnar hans í píanóleik. Sveinbjörn var um árabil eftirsóttur píanókennari þar í borg, en Ásta mun hafa verið eini íslendingur sem naut tilsagnar hans meðan hann var þar. Hún giftist Magnúsi Einarssyni dýralækni í Reykjavík og var eftir það nefnd Ásta Einarsson. Hún andaðist 1959.

Íslenzkar konur í tónlist. Jón Þórarinsson. Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1986, bls. 4.


Tengt efni á öðrum vefjum

Píanóleikari og tónlistarmaður

Þorsteinn Jóhannesson uppfærði 28.02.2016