Guðrún Birgisdóttir (Guðrún Sigríður Birgisdóttir) 03.02.1956-

<p>Guðrún lærði á flautu hjá Manuelu Wiesler við Tónlistarskólann í Reykjavík. Að loknu námi hér heima lærði hún hjá Per Öien við Tónlistarháskólann í Ósló en gerðist þá nemandi Fernand Caratgé við Ecole Normale de Musique í París og þaðan lauk hún einleikaraprófi árið 1979. Eftir það var henni veittur þriggja ára styrkur frá franska ríkinu til frekara náms í einkatímum hjá Raymond Guiot og Pierre-Yves Artaud, prófessorum í flautuleik við Tónlistarháskólann í París.</p> <p>Árið 1982 gerðist Guðrún flautukennari við Tónlistarskólana í Kópavogi og í Reykjavík. Hún tók strax þátt í margs konar tónlistarflutningi og hefur haldið fjölda einleikstónleika. Meðal þeirra sem hafa fengið hana til liðs við sig sem einleikara og kammermúsíkant má nefna Kammersveit Reykjavíkur, Kammermúsíkklúbbinn, Tríó Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Listahátíð í Reykjavík, „Tíbrá“ í Kópavogi, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og „Norðurljós“, tónlistarhátíð Musiqua Antiqua. Guðrún hefur einnig leikið mikið á landsbyggðinni og verið gestur á fjölmörgum hátíðum. Hún hefur gert hljóðritanir fyrir útvarp og sjónvarp og einnig gefið út marga geisladiska. Guðrún hefur leikið mikið við leikhúsin og Óperuna í Reykjavík og haldið marga barnatónleika enda hefur hún tekið þátt í „Tónlist fyrir alla“ frá upphafi. Frá árinu 1990 hefur Guðrún lagt stund á barokkflautuleik og farið utan til námskeiða og í einkatíma í þeirri grein. Guðrún hefur komið fram á tónleikum austan hafs og vestan og þá gjarnan flutt íslensk verk enda hafa íslensk tónskáld samið fyrir hana allmörg tónverk.</p> <p align="right">Af vef tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið 2006.</p>

Staðir

Tónlistarskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Tónlistarháskólinn í París Háskólanemi -1979
Tónlistarskóli Kópavogs Flautukennari 1982-

Skjöl


Flautukennari , flautuleikari , háskólanemi , tónlistarkennari og tónlistarnemandi

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 3.02.2016