Karl Lilliendahl 16.07.1933-10.03.2002

Karl ólst upp í Reykjavík og hóf hljómlistarferil sinn í Gagnfræðaskóla Austurbæjar er hann stofnaði skólahljómsveit þar 1949 ásamt Ragnari Bjarnasyni og Sigurði Þ. Guðmundssyni. Karl lék með Hljómsveit Þórarins Óskarssonar í Listamannaskálanum og með Hljómsveit Guðmundar Norðdahl í Vestmannaeyjum 1951-1952, með Hljómsveit Guðmundar R. Einarssonar í gamla Þórscafé við Hlemm 1953, með Guðmundi Norðdahl í Ungó í Keflavík 1954, með Hljómsveit Josefs Felzman og síðan Hljómsveit Aage Lorange í Tjarnarcafé frá 1955. Árið 1957 stofnaði Karl NEÓ-tríóið ásamt Magnúsi Péturssyni og Kristni Vilhelmssyni og léku þeir í Leikhúskjallaranum og Lídó til 1961. Eigin hljómsveit stofnaði Karl árið 1962 sem lék í Klúbbnum til 1966, en annaðist eftir það allan hljómlistarflutning á Hótel Loftleiðum frá opnun þess og til 1972. Eftir það starfaði hann með ýmsum hljómlistarmönnum, m.a. í Naustinu, Templarahöll Reykjavíkur og Veitingahúsinu Ártúni. Karl starfaði einnig sem sölumaður frá 1973, fyrst hjá Timburverslun Árna Jónssonar en síðan hjá Húsasmiðjunni frá 1985 til 1996. Karl var starfsmaður Hagaskóla frá 1997 til æviloka. Karl gekk til liðs við Kiwanis klúbbinn Heklu árið 1970 og gegndi tvívegis embætti forseta klúbbsins.

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómsveit Aage Lorange Gítarleikari 1955
Hljómsveit Karl Lilliendahl Hljómsveitarstjóri 1962 1972

Tengt efni á öðrum vefjum

Gítarleikari og hljómsveitarstjóri

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 12.10.2017