Ingólfur Guðbrandsson 06.03.1923-03.04.2009

Ingólfur var fæddur 6. mars 1923. Foreldrar hans voru Guðrún Auðunsdóttir og Guðbrandur Guðbrandsson á Prestsbakka á Síðu.

Ingólfur lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1943 og stundaði nám í tungumálum við Háskóla Íslands á árunum 1944 til 1949. Síðar hélt hann til tónlistarnáms við Guildhall School of Music í London og stundaði nám í ensku og hljóðfræði við University College í London. Þá stundaði hann framhaldsnám í tónlist við Tónlistarháskólann í Köln, í Augsburg og í Flórens.

Árið 1943 hóf Ingólfur störf sem kennari við Laugarnesskóla og bryddaði þar upp á ýmsum nýjungum í tónlistarkennslu, þar á meðal morgunsöng sem enn er lifandi hefð í skólastarfinu. Hann varð síðar námstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu og starfaði sem skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík um skeið.

Ingólfur stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1955 og var forstjóri hennar til ársins 1988. Síðar stofnaði hann ferðaskrifstofuna Prímu og Heimsklúbb Ingólfs, og starfaði á vettvangi ferðamála allt til ársins 2006.

Ingólfur var frumkvöðull í kórstarfi og tónlistarflutningi á Íslandi. Árið 1957 stofnaði hann Pólýfónkórinn og undir hans stjórn voru frumflutt á Íslandi mörg af stærstu verk- um tónbókmenntanna. Kórinn hélt tónleika víða um heim og hafa margar plötur og geisladiskar komið út með söng hans.

Ingólfur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1977, og ítölsku riddaraorðunni Cavaliere della Repubblica Italiana sama ár. Árið 1972 var hann gerður að heiðursfélaga Félags íslenskra tónmenntakennara. Þá var hann útnefndur Capo dell’Ordine „Al Merito della Repubblica Italiana“ árið 1991. Í febrúar 2009 hlaut Ingólfur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Ingólfur eignaðist átta börn. Þau eru Þorgerður, Rut, Vilborg, Unnur María, Inga Rós, Eva Mjöll, Andri Már og Árni Heimir.

Úr andlátsfregn í Morgunblaðinu 4. apríl 2009, bls. 2.

Sjá einnig Kennaratal á Íslandi, 1. bindi bls. 314.

Staðir

Kennaraskóli Íslands Kennararnemi -1943
Háskóli Íslands Háskólanemi 1944-1949
Laugarnesskóli Kennari 1943-

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Pólýfónkórinn Stjórnandi 1957 1988

Tengt efni á öðrum vefjum

Ferðaskrifstofustjóri, háskólanemi, kennararnemi, kennari, kórstjóri, námsstjóri, söngkennari og tónlistarmaður

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 6.03.2015