Peter Máté 04.06.1962-

<p>Peter Máté er af ungversku bergi brotinn en hann var fæddur í Roznava í Tékkóslóvakíu. Hann stundaði píanónám frá ungum aldri en lauk einleikara- og kennarameistaragráðu úr Tónlistarakademíunnni í Prag. Á námsárum sínum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, svo sem í Vercelli og Enna á Ítalíu 1986 og 1989.</p> <p>Peter hefur búið á Íslandi frá árinu 1990 og kennir nú við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hefur haldið einleikstónleika, leikið einleik með ýmsum sinfóníuhljómsveitum og tekið þátt í kammertónleikum, t.d. með Tríói Reykjavíkur og Kammertríói Kópavogs víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Í febrúar 2012 frumflutti Peter píanókonsert Jóns Ásgeirssonar á Akureyri ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.</p> <p>- - - - -</p> <p>Peter Máté was born in Roznava in the former Czechoslovakia. He studied with Ludmila Kojanová in Kosice and Valentina Kameníková at the Prague Academy of Music, AMU. As a student he won prizes both in his home country and at international contests, such as Vercelli and Enna in Italy in 1986 and 1989.</p> <p>Peter has lived in Iceland since 1990. He teaches at the Reykjavík College of Music and the Iceland Academy of the Arts, where he is the head of the Piano department. He has given solo recitals, played solo with various symphony orchestras, and taken part in chamber concerts far and wide in Europe and the United States. Peter is a member of the Reykjavík Piano Trio and the Kópavogur Flute Trio. He frequently gives master classes and he has been a jury member in various competitions.</p> <p align="right">Sumartónleikar í Sigurjónssafni – tónleikaskrá 16. júlí 2013.</p> <blockquote>Árið 1987 kom Ungverjinn Ferenc Utassy til Íslands. Hann var ráðinn til að gegna stöðu skólastjóra við nýstofnaðan Tónlistarskóla á Stöðvarfirði, en hann kom hingað til lands fyrir tilstilli Gunnsteins Ólafssonar tónlistarmanns sem hafði stundað nám í Ungverjalandi. Ferenc var á Stöðvarfirði í tvö ár, en þegar hann ákvað að færa sig um set til Reykjavíkur árið 1989 hafði hann samband við vinafólk sitt, þau hjónin Peter Máté og Lenku Mátéová, og fékk þau til að koma til landsins og taka að sér stöðuna og aðra kennslu við skólann. Peter og Lenka komu frá Tékkóslóvakíu og eru bæði hámenntaðir og fjölhæfir tónlistarmenn; Peter er þó fyrst og fremst píanóleikari og Lenka er organisti og kórstjóri. Peter varð skólastjóri skólans, og þau hjónin kenndu bæði við skólann og spiluðu í nokkrum kirkjum í nágrenninu. Á Stöðvarfirði voru þau til ársins 1993 en fluttu þá til Reykjavíkur, bjuggu reyndar á Álftanesi fyrst þar sem Peter kenndi við tónlistarskólann í hreppnum.<br /> <br /> Saga Peters og Lenku er sjálfsagt áþekk sögu margra tónlistarmanna sem komu hingað frá Austur-Evrópu á árunum í kringum 1990. Fólk leitaði að öryggi í tvennum skilningi; efnahagslegu og pólitísku. Á þessum tíma var mikið upplausnarástand í þeim löndum sem höfðu verið fyrir austan járntjald, ekki síst í Tékkóslóvakíu. Auk þess voru kjörin mun betri á Vesturlöndum, þannig að hámenntað tónlistarfólk eins og t.d. Peter lagði á sig að fara úr góðri stöðu – kennslu við tónlistarmenntaskóla í Slóvakíu þar sem hann var með góða nemendur – og taka að sér kennslu við nýstofnaðan tónlistarskóla þar sem hann kenndi lítt þjálfuðum nemendum á hvert það hljóðfæri sem þörf krafði; blokkflautu, gítar – hvað sem var.<br /> <br /> Síðan fluttu þau suður til að komast í betra samband við tónlistina í landinu og á árunum 1997–98 tóku þau meðvitaða ákvörðun um að vera áfram hér á landi; hér höfðu kjör tónlistarkennara og annarra tónlistarmanna batnað til muna, þau höfðu fengið spennandi verkefni og leið vel í landinu, höfðu skapað sér tilveru hér á landi. Hér er hæfileg þensla og spenna í þjóðfélaginu, sem gerir það ákjósanlegan bústað fyrir þau. Peter líkti sambandinu við Ísland, eða frekar veru sinni í landinu, við hjónaband. Maður þarf á einhverjum tímapunkti að taka ákvörðun um að maður ætli að lifa lífinu á einhvern hátt, að vera í hjónabandi; búa í ókunnu landi. Núna er Peter kennari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hann hefur auk þess verið meðlimur í ýmsum kammerhópum, en þar ber helst að telja Tríó Reykjavíkur sem auk hans er skipað Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara frá árinu 1995 og Tríó Romance ásamt Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur, hann hefur spilað einleik með Sinfóníuhljómsveitinni og er nú meðal okkar virtustu píanóleikara og kennara...</blockquote> <p align="right">Úr grein Inginbjargar Eyþórsdóttur Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld – 4. grein: Frjótt samstarf, frjótt samspil.</p>

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 11.08.2015