Helgi Þór Ingason 13.02.1965-

<p>Nikku eignaðist ég í fyrsta sinn síðsumars 2002 en frá barnsaldri hlustaði ég og horfði á Nonna frænda minn á Syðri-Á þenja nikkuna sína. Annars er ég píanisti að upplagi. Lærði að spila á píanó frá níu ára aldri, hjá Jóni Stefánssyni söngstjóra, í Tónskóla Sigursveins og svo nokkrum árum síðar í Jassdeild FÍH hjá Karli Möller. Á árunum mínum í FÍH stofnaði ég jasshljómsveitina Jassgauka ásamt skólafélögum, þeim Ara Haraldssyni (sax), Einari Sigurðssyni (bassi) og Þorsteini Gunnarssyni (trommur). Jassgaukar voru stofnaðir árið 1983 til að spila hefðbundna jasstónlist og hljómsveitin sú kom fram á Gauki á Stöng, Hellinum, Fógetanum og fleiri pöbbum á fyrstu þremur upphafsárum slíkra staða í Reykjavík. Það er alltaf á dagskránni að taka aftur til við nám í jasspíanóleik, hver veit nema það gefist brátt tími til þess?</p> <p>Ég stundaði klassískt söngnám í Söngskólanum í Reykjavík einn vetur undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og söng í mörg ár með Kór Langholtskirkju. Ég hef líka sungið með Óperukórnum og tekið þátt í óperuflutningi í Íslensku óperunni. Tónlistin er áhugamálið mitt og eftir strangan vinnudag sest ég gjarnan við flygilinn og fletti jassbiblíunni. Stundum fæ ég hugmyndir að lögum og jafnvel textum og nokkur slík hugarfóstur hafa ratað á dagskrá hljómsveitarinnar. Tónsmíðar, textasmíðar og útsetningar eru með því allra skemmtilegasta sem ég fæst við.</p> <p>Ég er annars véla- og iðnaðarverkfræðingur að mennt, lauk doktorsprófi í málmverkfræði frá Norska Tækniháskólanum í Þrándheimi og starfa nú við kennslu og rannsóknir við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Að auki sinni ég kennslu og ráðgjöf í atvinnulífinu undir merkjum Nordica ráðgjafar ehf. Í daglegum störfum mínum fæst ég mest við stjórnun af ýmsu tagi, bæði verkefnastjórnun og gæðastjórnun.</p> <p align="right">Af vef South River Band (13. október 2015).</p>

Staðir

Tónskóli Sigursveins Tónlistarnemandi -
Tónlistarskóli Félags íslenskra hljómlistarmanna Tónlistarnemandi -
Söngskólinn í Reykjavík Tónlistarnemandi -
Háskólinn í Reykjavík Háskólakennari -

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
South River Band Söngvari og Harmonikuleikari 2000-08

Tengt efni á öðrum vefjum

Jón Hrólfur Sigurjónsson uppfærði 13.10.2015