Shady Owens (Patricia Gail Owens) 16.07.1949-

Shady fæddist í St. Louis í Chicago, hún átti þrjú systkini, bræðurna Daniel og Danna og systurina Valerie. Faðir hennar var bandarískur en móðirin íslensk. Hún kom fyrst fram opinberlega í gagnfræðaskólanum sínum í St. Louis í einskonar hæfileikakeppni eða sýningu. Með henni var ungur piltur á gítar og fluttu þau lög sem Sonny og Cher höfðu gert fræg. Í kringum þessa sýningu var farið að kalla þau Sonny and Shady og ákvað Patrica að taka nafnið Shady upp sem listamannanafn.

Shady kom fyrst til Íslands árið 1956, þá aðeins sjö ára gömul, í heimsókn með móður sinni og öðru sinni árið 1962 og þá til að vera hér í tvö og hálft ár. Í þeirri ferð byrjaði hún að læra íslensku í gagnfræðaskólanum í Kópavogi. Fimm árum síðar, eða 1967 kom Shady svo til landisns á ný og fór að vinna á Keflavíkurvellinum. Í þeirri ferð kynntist hún systur Valla (Vals Emilssonar gítarleikara Óðmanna) sem sagði bróður sínum frá því að Shady væri úrvals söngkona. Og 1968 var Shady orðin söngvari í Óðmönnum. Fyrsta kvöldið með Óðmönnum söng hún þó aðeins fjögur lög, en þeim fjölgaði jafnt og þétt næstu kvöldin. Hljómar voru á þessum tíma langvinsælasta hljómsveit landsins og áttu ekki í erfiðleikum með að næla í söngkonuna ungu, sem varð til þess að Óðmenn lögðust í tímabundið dá. Með Hljómum söng Shady sennilega eitt þekktasta lag sitt, Ég elska alla, sem kom fyrst út á annarri LP plötu þeirra 1968, sem tekin var upp í Lundúnum á Englandi undir stjórn Tony Russell. Til gamans má geta þess að blásarasveitin í laginu er bresk og meðal blásaranna er hinn heimsfrægi Ronnie Scott á tenórsaxafón. Þegar Trúbrotssprengjan varð fylgdi Shady með þeim Gunnari og Rúnari og tók þátt í stofnun Trúbrots en ákvað um mitt ár 1970 að hætta og halda heim til Bandaríkjanna.

En hún kom þó aftur og í febrúar 1972 gekk Shady Owens til liðs við hljómsveitina Náttúru sem auk hennar bar þá Björgvin Gíslason (gítar), Sigurð Árnason (bassi), Ólaf Garðarsson (trommur), Áskel Másson (slagverk) og Jóhann G. Jóhannsson (gítar, söngur), auk þess sem Karl Sighvatsson lék með þeim öðru hverju. Eftir það ævintýri snéri Shady aftur til Bandaríkjanna.

Hún hefur þó komið hingað til lands nokkrum sinnum síðan og stigið á svið og sungið, auk þess að syngja inn á nokkrar hljómplötur fyrir ýmsa gamla félaga og má nefna Gunnar Þórðarson sem fékk Shady til að synga inn á plötuna Himin og Jörð, sem kom út árið 1981. Á tíunda áratugnum kom Shady hingað upp til Íslands og tók þátt í sýningum á veitingahúsinu Broadway. Shady Owens er nú búsett á Englandi.

Tónlist.is 9. júlí 2014. Bárður Örn Bárðarson

Hópar

Hópur 1 Stöður Frá Til
Hljómar Söngkona 1968-08-17
Náttúra Söngkona 1972-01
Óðmenn Söngkona 1968-02 1968-07
Trúbrot Söngkona 1969-05 1970-05-21

Skjöl


Tengt efni á öðrum vefjum

Söngkona
Ekki skráð

Bjarki Sveinbjörnsson uppfærði 2.04.2020