Páll Halldórsson 14.01.1902-30.06.1988

Páll Halldórsson, organleikari Fæddur 14. janúar 1902, dáinn 30.júní 1988. Tvö ár eru nú liðin frá því að Páll Halldórsson, söngstjóri og organleikari var burt kallaður til hinstu ferðar. Hann lést í bílslysi í júnílok 1988.

Þó lífár hans væru mörg fannst manni hann vera líkari sextugum manni í öllu fasi. Hann var léttur á fæti, fór flestar sínar ferðir gangandi, minnið var einstaklega gott, næstum óbrigðult að manni fannst, og enn æfði hann sig daglega á píanó og orgel og fipaðist hvergi í hljóðfæraleiknum. Andlátsfregnin kom því óvænt öllum sem til hans þekktu.

Páll fæddist í Hnífsdal14. janúar 1902. Faðir hans var Halldór Pálsson útvegsbóndi og formaður Halldórssonar, en móðir hans var Guðríður Mósesdóttir, Illugasonar, Örnólfssonar, Snæbjörnssonar.

Páll var elstur sjö systkina. Hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni 26. febrúar 1938. En hún er Hulda Sigríður Guðmundsdóttir Norðdahl. Foreldrar hennar bjuggu í Elliðakoti og á Geithálsi í Mosfellssveit. Börn Páls og Huldu eru: Margrét, kennari, fædd 14. apríl 1943 og Halldór, flautuleikari, fæddur 15. júní 1946.

Páll lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum í Reykjavík 1925. Hann nam orgelleik hjá Páli Ísólfssyni 1926-1930. Hljómfræði hjá Sigfúsi Einarssyni og kontrapunkt hjá dr. Victori Urbancic. Árið 1948-1949 stundaði hann framhaldsnám í Musikschule & Konservatorium í Basel, og Det kgl. danske Musikkonservatorium og Statens Lærerhöjskole í Kaupmannahöfn. Hann sótti námskeið í klassískum kirkjusöng í Halmstad í Svíþjóð árið 1948, og námskeið norrænna tónlistarkennara í Osló 1949.

Kennsluferil sinn hóf hann við Nauteyrarhr.skóla, N- ís., 1925-1926. Kennari við Austurbæjarskóla í Reykjavík frá 1930 til 1959. Stundakennari við Iðnskóla Reykjavíkur 1930-1932. Verslunarskóla Íslands 1932-1936. Söngstjórn: Karlakór Hnífsdælinga 1919-1920. Karlakór iðnaðarmanna 1932-1942, Söngfél. Þrestir í Hafnarfirði 1927-1928 og 1949-1950, Söngfél. Stefnir í Mosfellssveit 1945-1951. Aðstoðarorganleikari við Fríkirkjuna í Reykjavík 1926-1930. Kirkjuorganleikari Hallgrímskirkju í Reykjavík 1941-1977. Í stjórn Félags íslenskra organleikara frá 1951-1966.Í norræna kirkjutónlistarráðinu frá 1957-1965.

Eins og af framanskráðu má sjá hve ötull Páll var og starfsamur. Enn er þó eftir að geta tónskáldsins. Hann samdi mikið af lögum, en hér verða nefnd: Hin mæta morgunstund, partita fyrir orgel 1981. Ó, guð, þér hrós og heiður ber, partita fyrir orgel, útg. 1981. og Tólf kóralforspil, útg. 1982. Hér verða ekki talin öll hans verk, en alþekkt er Nýtt söngvasafn, sem hann tók saman og bjó til prentunar ásamt Friðriki Bjarnasyni o.fl. sem þeir félagar unnu fyrir Ríkisútgáfu námsbóka.

Páll var góður nótnaskrifari. Hann skrifaði t.d. nóturnar í nýja sálmasöngsviðbætinn o.m.fl.

Félag íslenskra organleikara var stofnað 17. júní 1951. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir nafnarnir Páll Ísólfsson, formaður, Páll Halldórsson, féhirðir og Páll Kr. Pálsson, ritari. Þeir stjórnuðu félaginu óslitið frá 1951 til 1966 og unnu þar sameiginlega brautryðjendastarf sem seint verður fullþakkað.

Um nokkurt skeið hafði verið rætt um þörf félagsins fyrir málgagn, sem treysti samband milli félagsmanna, flytti fréttir og miðlaði fróðleik, sérstaklega um kirkjutónlist og mál henni tengd.

Páll Halldórsson var hér einn aðalhvatamaðurinn. Fyrsta Organistablaðið kom út í maí árið 1968. Ritnefndina skipuðu Gunnar Sigurgeirsson, Páll Halldórsson og Ragnar Björnsson. Páll lagði blaðinu lið frá því að fyrsta blaðið kom út og alla tíð síðan á meðan hans naut við. Hann var óþreytandi að afla styrkja, safna efni, skrifa í blaðið, fylgjast með prentun og lesa prófarkir. Flestir ritnefndarfundirnir voru haldnir á heimili þeirra Huldu, þar sem allir nutu frábærrar gestrisni og veitinga.

Það er Páli að þakka að útgáfa blaðsins stöðvaðist ekki og að ekkert íslenskt tónlistarblað hefur verið gefið út jafn lengi og Organistablaðið. Hann fann alltaf einhver ráð til fjármögnunar og hvatti okkur félagana stöðugt til að efna til funda og undirbúa útgáfu.

Þegar Páll vara áttræður stóð til að minnast tímamótanna í blaðinu. En jafnötull og hann var að vinna að útgáfu blaðsins, eins ákveðinn var hann að vera ekki sjálfur til umræðu á síðum þess. Á ýmsan hátt lýsir þetta honum rétt. Hann var maður athafna frekar en orða.

Páll gegndi störfum bókavarðar í Borgarbókasafni á annan áratug. Hann hafði yndi af bókalestri, mundi vel það sem hann las og var hafsjór af fróðleik, lét lítið yfir því en miðlaði þeim, sem unnu með honum, þegar á þurfti að halda.

Hann rækti organistastörfin við Hallgrímskirkju af mikilli samviskusemi. Tónleikaskrár kórsins sýna að aldrei féll úr ár án kórtónleika, sumir í tónleikaröð „Musica sacra“, aðrir á eigin vegum og kirkjunnar.

Hér hefur verið getið nokkurra þátta úr langri lífssögu, því miður á ófullkominn hátt miðað við hvað vert væri. En hér læt ég staðar numið, þakka ánægjuleg kynni, gefandi samvinnu og drengilega vináttu.

Huldu og fjölskyldu votta ég innilega hluttekningu og þakka fyrir hönd F.Í.O. þau fjölþættu og miklu störf sem hann vann íslenskri organleikarastétt. Líf er eftir þetta líf og tónlistin heldur áfram að hljóma í tærum og voldugum samhljómum.

Kristján Sigtryggsson. Organistablaðið. 1. janúar 1989, bls. 15.

Sjá einnig: Kennaratal á Íslandi, II. bindi bls. 47.

Staðir

Fríkirkjan í Reykjavík Organisti 1926-1930
Hallgrímskirkja Organisti 1941-1978

Tengt efni á öðrum vefjum

Kennari, organisti og tónlistarmaður

Hugi Þórðarson uppfærði 12.12.2014