Guðrún Sigríður Hafliðadóttir 30.04.1921-07.09.2005

<p>Guðrún Sigríður Hafliðadóttir fæddist í Hergilsey á Breiðafirði 30. apríl 1921. Hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 7. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Hafliði Þórður Snæbjörnsson Kristjánssonar í Hergilsey og Matthildur Jónsdóttir frá Skeljavík í Steingrímsfirði. Guðrún Sigríður var yngst fjögurra barna foreldra sinna og hálfbróður, samfeðra, allmiklu eldri. Bræður hennar, Kristján Pétur, Snæbjörn Gunnar og Hafliði, hálfbróðir hennar, eru látnir, bróðir hennar Kristján Hafliðason, fv. póstrekstrarstjóri hjá Pósti og síma, er einn systkinanna á lífi. Föður sinn missti Guðrún af slysförum, þegar hún var á sjötta árinu, en hann var aðeins 39 ára að aldri. Árið 1934 flutti ekkjan, Matthildur, með börnin til Reykjavíkur.</p> <p>Árið 1946, 27. júlí, giftist Guðrún sr. Arngrími Jónssyni, og fluttu þau skömmu síðar að Odda á Rangárvöllum þar sem sr. Arngrímur hafði verið kjörinn sóknarprestur. Þar bjuggu þau í 18 ár og stunduðu einnig búskap öll árin nema það fyrsta. Guðrún var organisti í Oddakirkju nokkur ár framan af árunum þar og einnig nokkur síðustu árin í Odda. Hún kenndi handavinnu í barnaskólanum á Strönd á Rangárvöllum um tveggja vetra skeið og greip þá einnig í að kenna börnum sönglög. Á árunum í Odda eignuðust hjónin þrjú börn. Þau eru:</p> <ol> <li>Hafliði, leikhúsfræðingur og leikstjóri. Hann er kvæntur Margréti Pálmadóttur, tónlistarmanni og söngstjóra. Þau eiga þrjú börn.</li> <li>Kristín, myndlistarmaður og bókavörður. Hún á fjögur börn og tvö barnabörn.</li> <li>Snæbjörn, bókaútgefandi. Hann var kvæntur Guðrúnu Ósk Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi. Þau eiga þrjú börn. Seinni maki hans er Susanne Torpe cand. mag. og eiga þau einn son.</li> </ol> <p>Árið 1964 fluttust hjónin til Reykjavíkur, þar sem sr. Arngrímur tókst á hendur prestsþjónustu í Háteigsprestakalli og þjónaði þar í 29 ár. Árið 1967 og 1968 tók Guðrún að sér ráðskonustörf við sumarbúðir Þjóðkirkjunnar á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði og í Skálholti.</p> <p>Árið 1970 hóf hún sjúkraliðanám á Landspítalanum og lauk því með ágætum. Starfaði hún síðan í nokkur ár á Landspítala og einnig vann hún allnokkur ár sem sjúkraliði á St. Jósefsspítala við Landakot, en síðast á starfsferlinum fékkst hún við heimahlynningu.</p> <p>Eftir að þjónustu lauk í Háteigsprestakalli dvöldu hjónin tæpt ár á Egilsstöðum og á Borgarfirði eystra og síðar á Útskálum í Garði vegna námsleyfis sóknarpresta á þessum stöðum. Síðan hafa þau búið í Reykjavík.</p> <p align="right">Minningargrein. Morgunblaðið 16. september 2005.</p>

Staðir

Oddakirkja Organisti 1946-1963

Tengt efni á öðrum vefjum

Rósa Þorsteinsdóttir uppfærði 7.05.2019